Hátt í fimm ár eru síðan ríkið leitaði síðast tilboða í farseðla fyrir opinbera starfsmenn. Tvö félög sendu þá inn tilboð, Icelandair og Iceland Express. Báðum tilboðum var tekið en Iceland Express hætti starfsemi stuttu síðar.

Það stóð til að kynna útboðið í haust en samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum er ennþá verið að klára útboðsgögnin og mun útboðið því frestast enn frekar. Vonast er að vinnunni muni ljúka fyrir áramót en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort að útboðið verði kynnt með formlegum hætti eða aðeins auglýst.

Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði um þaði í lok apríl sl. að ríkið ætti að bjóða út farmiðakaup sín vegna ferða til og frá Íslandi en rammasamningi um farmiðakaup var sagt upp árið 2012.

Félag atvinnurekenda sendi Ríkiskaupum bréf í lok október sl. og spurði um upplýsingar og stöðu útboðsins, en félagið hefur lengi talað fyrir nýju útboði. Framkvæmdastjóri félagsins, Ólafur Stephensen hefur m.a. einnig lagt áherslu á að flugfélög megi ekki bjóða starfsmönnum ríkisins flugpunkta en hann hefur m.a. sagt: „Það er í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir."

Samkvæmt heimildum vefmiðilsins Túristi þá hafa forsvarsmenn nokkurra erlenda flugfélaga áhuga á því að taka þátt í fyrirhuguðu útboði, en þó liggur ekki ennþá fyrir hvaða skilyrði Ríkiskaup munu setja varðandi flugáætlanir tilboðsgjafa.

Vefmiðillinn Túristi.is greinir frá.