*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Erlent 13. janúar 2022 14:32

Enska deildin fær 28 milljarða í bætur

Enska úrvalsdeildin fær 157 milljónir punda í bætur vegna vangoldinna greiðslna af hálfu kínversks útsendingarfyrirtækis.

Ritstjórn
Manchester City unnu ensku úrvalsdeildina með miklum yfirburðum á síðasta tímabili, 2020-2021.
epa

Enska úrvalsdeildin í fótbolta fær greiddar 157 milljónir punda í bætur, um 28 milljarða króna, vegna sjónvarpssamninga við kínverska útsendingarfyrirtækið PPLive Sports International Ltd. Þetta kemur fram í grein frá The Athletic.

Úrskurður var kveðinn upp í undirrétti í Bretlandi nú á dögunum, en þar segir að kínverska útsendingafyrirtækið hafi brotið gegn samningnum við deildina með því að greiða ekki fyrirfram ákveðnar afborganir. Jafnframt hafi fyrirtækið ekki komið fram með neina sannfærandi vörn í málinu.

Greiddu ekki milljarða afborgun

PP Sports, í eigu Suning Holdings Group sem eiga einnig fótboltaliðið Inter Milan, gerði 523 milljónir punda samning um sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni til þriggja ára, 2019-2022. Þess má geta að samningurinn var talinn sá arðbærasti fyrir ensku deildina, fyrir umrætt tímabil 2019-2022.

Útsendingarfyrirtækið greiddi hins vegar ekki afborgun upp á 155 milljónir punda, um 27 milljarða króna, í mars 2020, tveim vikum áður en 2019-2020 tímabilinu var frestað ótímabundið vegna Covid-19 faraldursins. Hálfu ári síðar, í september 2020, rifti úrvalsdeildin samningnum við PP Sports, en deildin hafði þá ekki ennþá fengið afborgunina greidda. Í kjölfarið gerði deildin í staðinn fjögurra ára samning við annað kínverskt útsendingarfyrirtæki iQIYI, í júlí.