Í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 25/2020, Brot Símans hf. á skilyrðum í sáttum við Samkeppniseftirlitið við sölu á Enska boltanum á Síminn Sport, hefur Vodafone ákveðið að bjóða Ensku úrvalsdeildina á Síminn Sport í Sjónvarpi Vodafone á kr. 1000 á mánuði út yfirstandandi keppnistímabil.

Það skal tekið fram að verð Símans á þjónustunni sem hluti af eigin vöruframboði er mun lægra en núgildandi heildsöluverð til Vodafone. Hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að þetta leggi stein í götu keppinauta Símans. Af þeim sökum hefur Vodafone óskað eftir því að Síminn breyti heildsöluverðlagningu sinni þannig að unnt verði að bjóða neytendum Enska boltann á kr. 1000 á mánuði einnig á næsta keppnistímabili án þess að umtalsvert tap hljótist af.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone:

„Það eru frábærar fréttir að geta boðið neytendum lægra verð í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins. Er það von okkar að þessi verðlækkun verði varanleg og að neytendur geti nálgast vöruna á þessu verði óháð því hvaða fjarskiptafélag þeir eiga viðskipti við.“

Hægt er að kaupa áskrift að Síminn Sport á aðeins 1.000 kr á mánuði í gegnum Mínar síður á Vodafone.is og verður efni aðgengilegt í gegnum myndlykil Vodafone, Stöð 2 öppin og vefsjónvarp Stöðvar 2.