*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 20. febrúar 2020 19:05

Enski boltinn á ekki roð í Bachelor

Metfjöldi spilana var í janúar hjá Símanum. Raunveruleikasjónvarp um ástarleit fær mun meira áhorf en enski boltinn.

Ingvar Haraldsson
Sýningar á 24. þáttaröð af The Bachelor standa nú yfir. Fyrsta þáttaröðin var sýnd árið 2002.
Aðsend mynd

Áhorf á efnisveitu Símans, Sjónvarp Símans Premium, hefur aldrei verið meira samkvæmt uppgjöri Símans sem birt var í dag. Spilanirnar fóru yfir milljón á viku í janúar en voru til samanburðar um 200 þúsund árið 2017. Bent er á að þættir á borð við Bachelor og Love Island séu ofarlega á vinsældalistum viku eftir viku. Áhorfið á þættina sé raunar mun meira en á stórleiki í enska boltanum. Þá hafi önnur þáttaröð af Venjulegu fólki verið vinsælasta íslenska efnið.

Síminn hefur verið í sókn á sjónvarpsmarkaði að undanförnu. Tekjur af sjónvarpi jukust um 17% milli áranna 2018 og 2019. Það skýrist að stórum hluta af því að fyrirtækið tryggði sér rétt af enska boltanum á síðasta ári. „Þó er annað sjónvarp en fótbolti sem viðskiptavinir okkar verja mestum tíma í að horfa á. Vinsælast er íslenskt efni, barnaefni og erlent raunveruleikasjónvarp um ungt fólk í leit að ástinni,“ segir í uppgjörinu.

Elvar Ingi Möller, hagfræðingur hjá Arion banka, lengst af hjá greiningardeild bankans, bendir á að þetta séu nokkur tíðindi, enda hafi margir beðið eftir uppgjörinu með eftirvæntingu og horfir þar til enska boltans. Fjórði ársfjórðungur var fyrsti heili ársfjórðungurinn þar sem Síminn hafði tekjur af enska boltanum.