Félagsliði í ensku úrvalsdeildinni vörðu um 30 milljónum Sterlingspunda til leikmannakaupa í janúar á meðan félagsskiptaglugginn var opinn, samanborið við um 170 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Þetta er minnsta velta frá upphafi þess að opnað var fyrir félagsskiptaglugga á miðju keppnistímabili árið 2003 að því er fram kemur í skýrslu frá Deloitte's Sports Business Group.

Eftir því sem fram kemur í skýrslu Deloitte kemur minni velta ekki  á óvart þar sem félagslið eru í auknum mæli farin að telja að leikmannakaup á miðju tímabili hafi ekki stórvægileg áhrif á gengi félaganna það sem eftir lifir keppnistímabilsins.

Þá kemur einnig fram að um 70% allra þeirra félagsskipta sem áttu sér stað í janúar voru lánasamningar, þ.e. þegar leikmenn eru lánaðir út tímabilið líkt og nú er tilfellið með Eið Smára Guðjonsen sem lánaður var frá Mónakó til Tottenham Hotspur út tímabilið en þá var Robbie Keane jafnframt lánaður frá Tottenham til skoska liðsins Celtic, svo dæmi séu tekin.

Tölur Deloitte byggja þó að einhverju magni á áætlunum þar sem ekki er í öllum tilvikum gefnar upp tölur um kaup á leikmönnum. Þannig má sem dæmi nefna að Adam Johnson var seldur frá Middlesbrough til Manchester City og Benni McCarthy var seldur frá Blackburn til West Ham en í hvorugu tilvikinu voru kaupupphæðir gefnar upp.

Þá gerir Deloitte jafnframt ráð fyrir því að minna verði um leikmannakaup á þessu ári en verið hefur síðustu ár í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum. Þó eru fjárhæðirnar sem greiddar eru fyrir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni töluvert yfir þeim upphæðum sem þekkjast í Frakklandi, Þýskalandi, á Ítalíu og á Spáni.