Áskrift af enska boltanum þegar Síminn tekur við útsendingum á honum í haust mun kosta 4.500 krónur á mánuði, en hægt verður að bæta við Sjónvarpi Símans Premium fyrir 1.500 krónur til viðbótar að því er Vísir greinir frá. Jafnframt verða í opinni dagskrá laugardagsleikirnir sem spilaðir eru klukkan 15:00 að því er mbl.is greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma yfirbauð Síminn Sýn í baráttunni um Enska boltann fyrir tímabilið 2019 til 2022, en hann var kallaður hjartað í útsendingum Stöð 2 sport. Er áætlað að verðið hafi verið að minnsta kosti 1,2 milljarðar króna.

Hjá síðarnefnda félaginu kostar stök áskrift að Stöð 2 sport 9.900 krónur en þar var enska deildin um 15% útsendinga. Einnig er hægt að kaupa Sportpakkanum, sem inniheldur Enska boltann auk fjölmargra annarra íþrótta, á 12.990 krónur þegar þetta er skrifað. Björn Víglundsson sem var framkvæmdastjóri miðla Sýnar á þeim tíma sagði þá að verðið hefði verið lækkað úr 14.900 krónum í 9.900 krónur, en áskrifendur Stöð 2 sport voru þá á annan tug þúsunda.

Fjölga beinum útsendingum um 32

Orri Hauksson forstjóri Símans sagði frá því á blaðamannafundi í morgun að Logi Bergmann Eiðsson hjá Morgunblaðinu og Tómas Þór Þórðarson, sem kemur yfir frá Sýn, haldi utan um sýninguna, sá síðarnefndi sem ritstjóri og lýsandi.

Auk þeirra verði meðal sérfræðinga sem komi að sýningunum knattspyrnufólki Bjarni Þór Viðarsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Margrét Lára Viðarsdóttir. Samhliða yfirtöku Símans á útsendingum 10. ágúst frá ensku úrvalsdeildinni mun beinum útsendingum fjölga um 32 frá því sem verið hefur og verða alls 239 yfir veturinn.

Af fyrrnefndum sérfræðingum hefur einn þeirra spilað sem leikmaður í Ensku Úrvalsdeildinni, en Eiður Smári Guðjohnsen lék um árabil með Chelsea og varð enskur meistari tvisvar. Bjarni Þór Viðarsson var á mála hjá Enska Úrvalsdeildarliðinu Everton á sínum yngri árum, en hann lék aldrei deildarleik fyrir liðið. Margrét Lára Viðarsdóttir hefur svo um árabil verið einn af bestu leikmönnum kvennalandsliðs Íslands og er hún markahæsti leikmaður í sögu liðsins. Þá hefur hún unnið fjölda titla innanlands.