Enskir brytar eru nú vinsælli en þeir hafa verið í áratugi, en nýríkir asískir og rússneskir milljónamæringar sækjast mjög eftir þjónustu hjá fáguðum brytum í anda hins geðþekka Reginald Jeeves. Nokkur fyrirtæki þjálfa bryta í Englandi og segja þau öll að eftirspurn fari sívaxandi og laun þeirra hærri en nokkru sinni fyrr.

Hæstu laun sem vitað er til að bryti hafi fengið voru 19,2 milljóna króna árslaun sem greidd voru bryta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Jafngildir það 1,6 milljóna króna mánaðarlaunum.

Í frétt Bloomberg er haft eftir Robert Watson, forstjóra fyrirtækisins The Guild of Professional English Butlers, að í ár hafi það þjálfað 20% fleiri bryta en í fyrra og að eftirspurn sé mun meiri en framboð. „Við eigum í sambandi við fólk sem á mikinn pening en lítinn tíma. Bankahrunið hafði tímabundin áhrif, en þetta fólk losar sig fyrr við Ferrari bílinn en við brytann.“ Watson segir að fyrirtækið þjálfi um 1.000 bryta á ári hverju og þar af fari um fimmtungur í vinnu hjá ríkum einstaklingum.