Hugsanlegur ágreiningur milli Hafnarfjarðarbæjar annars vegar og DEPFA bankans og FMS Wertmanagement hins vegar mun ekki fara fyrir íslenska dómstóla, heldur enska. Þá gilda ensk lög en ekki íslensk um samninginn. Kemur þetta fram í skilmálaskjali um endurfjármögnun erlendra lána að fjárhæð 13 milljarðar króna.

Í skjalinu segir einnig að allar óseldar lóðir bæjarins séu að veði og við sölu skuli 90% söluandvirðis renna til greiðslu á höfuðstól. Þá liggja hluta- og skuldabréf í eigu bæjarfélagsins að veði ef lánasamningur fer í vanskil.