Sænska fyrirtækið Enzymatica AB hefur nú fest kaup á 99,5% hlutafjár íslenska líftæknifyrirtækisins Zymetech ehf.

Fyrirtækin hafa samkvæmt fréttatilkynningu verið í viðskiptasambandi á liðnum árum, en kaupin miða að því að styrkja stöðu félaganna í vörn og sókn með einkaleyfisvarðri hagnýtingu á sjávarensímum.

Zymetech er íslenskt fyrirtæki sem hefur meðal annars framleitt Penzyme, húðsmyrsl sem unnið er úr þorsksensímum.

„Kaupin á Zymetech eru stór áfangi í fyrirhugaðri sókn Enzymatica á alþjóðamarkað,“ er haft eftir Fredrik Lindberg, forstjóra Enzymatica í fréttatilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að því vísindastarfi sem unnið hefur verið á Íslandi verði haldið áfram með óbreyttum hætti. Kaupverð er greitt með hlutabréfum og áskriftarréttindum í Enzymatica, sem leiðir til þess að hluthafar Zymetech verða hluthafar í Enzymatica.