Epal hefur nú gert innrás í miðbæ Reykjavíkur og hefur opnað verslun að Laugavegi 7 þar sem nú er rekin sameiginleg verslun Epal og Liborius.

Gaman er að sjá afraksturinn af blöndu þessara tveggja verslana sem nú deila með sér um 120 fermetra húsnæði. Í versluninni verða til sölu frá Epal nytjahlutir og skrautmunir fyrir heimilið. Í nýju versluninni leggur Epal mest upp úr góðu úrvali af gjafavörum og eru vörurnar frá hönnuðum sem Íslendingar eru farnir að þekkja, eins og Rosendahl, Norman Copenhagen og einnig er að finna fjöldan allan af vörum frá íslenskum hönnuðum.

Liborius og Epal eiga í raun vel saman þar sem Liborius býður upp á hátískufatnað, fyrir bæði dömur og herra, frá virtum hönnuðum eins og Christian Dior í Frakklandi, Ann Demeulemeester í Belgíu, Number (N)ine, Undercover í Japan og mörgum fleirum. Í versluninni fást einnig sérvalin ilmvötn og ýmiss konar fylgihlutir sem eru meðal annars úr silki, kasmírull, leðri og silfri ásamt því að hægt er að nálgast svarta demanta í búðinni.

Fólk sem vill skera sig úr hefur oft leitað í fatarekkana hjá Liborius þar sem flestar vörurnar hjá þeim eru í takmörkuðu upplagi og aðeins í boði í tengslum við árstíðabundna framleiðslulínu hönnuðarins. Liborius fylgir einnig fordæmi kunnra úrvalsverslana í París sem kynna reglulega sérvalin bókmenntaverk. Þessi skemmtilega lífsstílsverslun er kærkomin nýjung á Laugaveginn.