Skakkiturn ehf., umboðsaðili Apple á Íslandi, hagnaðist um 177 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 19 milljónir króna á milli ára. Þetta má sjá í ársreikningi fyrirtækisins.

Rekstrartekjur fyrirtækisins nám 2.877 milljónum króna, en rekstrargjöld voru 2.667 milljónir króna. Nam rekstrarhagnaður félagsins því 210 milljónum króna.

Eignir Skakkaturns námu 838 milljónum króna í árslok en skuldir voru 326 milljónir króna. Eigið fé nam 511 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið 61%.

Á árinu 2014 var greiddur arður til hluthafa að fjárhæð 100 milljónir króna. Stjórn félagsins leggur nú til að greiddur verði arður að fjárhæð 150 milljónir króna til hluthafa á þessu ári.

Báshylur ehf. á allt hlutafé í fyrirtækinu en Valdimar Grímsson, stjórnarformaður Skakkaturns og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, á 95% eignarhlut í Báshyl.

Bjarni Ákason er framkvæmdastjóri Skakkaturns.