Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, kveðst ekki sjá betur en að epli og appelsínur séu borin saman til að sýna lykilniðurstöðu í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg markmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafanna á landamærum, sem lagt var fyrir ríkisstjórn sl. föstudag.

„Í minnisblaðinu eru teknar saman handahófskenndar tölur og bornar saman. Þarna er að finna ágætis umræðupunkta en þetta minnisblað er engan veginn  heildstætt yfirlit og mat á efnahagslegum kostnaði og ávinningi af einhverjum aðgerðum, í samanburði við aðrar aðgerðir. Í minnisblaðinu koma fram þættir sem gott er að hafa í huga og einhverjar vísbendingar, en í raun lítið meira en það," segir Konráð.

Líkt og mikið hefur verið fjallað um verða komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnatakan verður á landamærum og að því búnu ber komufarþegum að fara í sóttkví í 4-5 daga þar til niðurstaða fæst úr seinni sýnatöku. Yfirvofandi aðgerð á landamærum hefur fengið misjafanar móttökur. Einhverjir hafa fagnað hertum aðgerðum en aðrir, t.d. fjöldi aðila innan ferðaþjónustunnar, hafa gagnrýnt fyrirkomulagið og sagt að það muni koma í veg fyrir að erlendir ferðamenn heimsæki landið.

Erfitt að reikna út óútreiknanlega veiru

Konráð segist ekki ósammála því að hert sé á aðgerðum við landamærin að einhverju leyti, en hann sé þó ekki viss um að ganga hafi þurft jafn langt og raun ber vitni.

„Það er mjög mikilvægt að gera þetta á réttum forsendum. Það er því miður einfaldlega ekki hægt að reikna út með nokkurri vissu kostnaðarábata í atburðum eins og eru að eiga sér stað í dag, sökum þess hve mikil óvissan í kringum veiruna er.

Mér þykir umhugsunarvert hversu mikla vissu stjórnvöld eru að gefa sér um að þessar tilteknu aðgerðir skili ákveðinni niðurstöðu og að þær séu betri en þær aðgerðir sem eru enn í gildi í dag. Líkt og fyrr segir hallast ég að því að það hafi verið rétt að herða aðgerðir við landamærin en svo má spyrja sig hversu langt eigi að ganga."

Þörf á dýpri og breiðari umræðum

Konráð kallar eftir meiri dýpt í umræðuna um efnahagsleg áhrif aðgerða á landamærum. „Það þarf að eiga sér stað mun breiðari og dýpri umræða til að hægt sé að fá skýrari sýn á við hvaða aðstæður tilteknar aðgerðir koma til greina," segir Konráð og bendir á að þessar breytingar, þar sem lokað og opnað sá á landamærin á víxl með skömmum fyrirvara, séu einar og sér mjög slæmar.

„Við þurfum að læra af hverju skrefi í þessu ástandi, enda hefur þjóðin ekki þurft að takast á við álíka ástand. Miðað við sókn veirunnar víða um heim erum við ekki að fara losna við hana í bráð og því þurfum við að læra að lifa með henni. Til að hægt sé að gera eitthvað á efnahagslegum forsendum þurfum við að sætta okkur við að það er erfitt að gefa sér nokkuð um hvernig hlutirnir séu eða hverjar líkurnar séu á hinu og þessu.

Umræðan hefur svolítið verið á þá leið að þetta allt saman liggi fyrir. Ég tel mikilvægt að vera heiðarlegur gagnvart því hvað óvissan er mikil. Við munum hreinlega aldrei vita það fyrr en eftir á hver skynsamlegasta lausnin er við landamærin. Það er ofboðslega erfitt fyrir hagfræðinga, sem eru ekki veirusérfræðingar, að áætla hvernig veiran muni koma til með að haga sér."