eQ Bank veitir bestu ráðgjöf finnskra greinenda um fjárfestingar í smærri fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkaði, samkvæmt tilkynningu frá Straum en eQ Bank er dótturfélag í 100% eigu Straums-Burðaráss.

Í tilkynningunni er vísað í „The European Small Caps Research Yearbook 2008“ sem óháða greiningarfyrirtækið AQ Research gefur út árlega.

Þá kemur fram að niðurstaðan byggist á hlutlægri mælingu á því hvort ráðleggingar greinenda á tímabilinu 1. apríl 2007 til 31. mars 2008 voru skynsamlegar í ljósi þess hvernig gengi í viðkomandi félögum þróaðist á markaði.

Athugunin náði til yfir 100 evrópskra verðbréfafyrirtækja og greiningarfyrirtækja og var litið til greininga þeirra á næstum 1.400 skráðum fyrirtækjum sem eiga það sameiginlegt að markaðsverðmæti þeirra er undir 500 milljónum Bandaríkjadala.

Í Finnlandi náði athugunin til greinenda hjá sex fyrirtækjum.

„Auk þess sem eQ veitti bestu ráðgjöf þessara fyrirtækja á heildina litið reyndist Tomi Tiilola hjá eQ vera þriðji besti greinandinn í Finnlandi á því tímabili sem um ræðir,“ segir í tilkynningunni.