Auðkýfingurinn Elon Musk, sem er ríkasti maður heims samkvæmt Forbes, lýsti því yfir á Twitter um tvöleytið í nótt að hann hygðist kaupa knattspyrnufélagið Manchester United. „Auk þess, þá er ég að kaupa Manchester United, verði ykkur að góðu,“ skrifaði Musk.

Manchester United hefur tapað fyrstu tveimur leikjunum á nýhöfnu tímabili í ensku úrvalsdeildinni og erfiðlega gengur hjá félaginu á leikmannamarkaðnum. Umræða meðal stuðningsmanna um eigendaskipti hefur því stigmagnast undanfarnar vikur en núverandi eigendur, Glazer-fjölskyldan, njóta ekki vinsælda. Eflaust vakti tíst Musk því athygli stuðningsmanna Man Utd.

Rúmum fjórum klukkutímum síðar dró Musk í land og tók fram að um grín væri að ræða. Musk, sem er forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, sagðist ekki hafa áhuga á að kaupa íþróttafélög. Hann bætti þó við að ef hann myndi kaupa eitthvað félag þá væri það Manchester United sem var uppáhaldsliðið hans í æsku.

Musk á nú í lagadeilum við samfélagsmiðilinn Twitter vegna 44 milljarða dala yfirtökutilboðs sem hann reynir nú að hætta við. Musk seldi fyrr í mánuðinum hlutabréf í Tesla fyrir 6,9 milljarða dala til að búa sig undir mögulega niðustöðu dómstóla.