„Það skildi þó aldrei vera að hluta þeirrar verðhækkunar sem gert hefur fyrstu kaupendum svo erfitt um vik sé hægt að rekja til sértækrar aðstoðar hins opinbera við þennan sama hóp?“ Þannig spyr Berg­þóra Bald­urs­dótt­ir, hagfræðingur í Greiningu Íslandsbanka, í umfjöllun um íbúðamarkaðinn á vef bankans í morgun þar sem bent er á að verð lítilla íbúða hafi hækkað umtalsvert hraðar en laun ungs fólks undanfarin ár.

„Þessum verðhækkunum hefur auk þess fylgt hækkun á leiguverði, sem gerir þeim leigjendum sem vilja kaupa sér íbúð enn erfiðara um vik að spara fyrir útborgun,“ segir í umfjölluninni og bent á að frá aldamótum hafi raunverð minni eigna hækkað um 93% á meðan ráðstöfunartekjur ungs fólks einungis um 15%. Munurinn hafi aldrei verið meiri.

„Stjórnvöld hafa þó ekki setið hjá aðgerðalaus. Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán og til fyrstu kaupa hefur vissulega hjálpað mörgum og um 55% þeirra sem keypt hafa sína fyrstu íbúð undanfarin 5 ár hafa nýtt sér úrræðið.“

Þótt upphæðirnar séu tiltölulega lágar í hlutfalli af heildarkostnaði og fjölmargir hafi ekki færi á að fullnýta sér úrræðin þá telur greiningardeildin líklegt að þau hafi hjálpað hluta fyrstu kaupenda inn á markaðinn.

„Því má þó ekki gleyma að úrræði sem hafa eftirspurnarhvetjandi áhrif á markaðinn geta að öðru óbreyttu leitt til hækkunar íbúðaverðs. Það skildi þó aldrei vera að hluta þeirrar verðhækkunar sem gert hefur fyrstu kaupendum svo erfitt um vik sé hægt að rekja til sértækrar aðstoðar hins opinbera við þennan sama hóp?“