Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, spyr í pistli á heimasíðu sinni hvort allt sé leyfilegt og vísar þar til nýlegra hótanna í hennar garð. Um leið greinir hún frá því að hún hafi óskað eftir lögreglurannsókn á málinu..

"Með tilliti til þess hef ég sent lögreglustjóranum í Reykjavík beiðni um að rannsaka þetta mál. Ég tel að með áletruninni á a.m.k. einu spjaldi göngumanna hafi augljóslega verið ráðist gegn persónu minni vegna starfa minna í opinbera þágu sem iðnaðarráðherra. Ég tel að með þessu hafi þeir sem í hlut áttu framið refsiverðan verknað, þar sem um hafi verið að ræða hótun um ofbeldi gegn mér sem opinberum starfsmanni vegna skyldustarfa minna, opinber hvatning til refsiverðra verka og að hótun um að fremja refsiverðan verknað sé til þess fallin að vekja hjá mér, dætrum mínum og fjölskyldu ótta um líf, heilbrigði eða velferð. Í bréfinu vísa ég til 106. gr., 121. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940," segir Valgerður í pistli sínum.

Fram hefur komið að mótmælin sl. laugardag hafi verið upphaf aðgerða sem standa munu í allt sumar. "Ég spyr sjálfa mig við hverju megi búast ef þetta er aðeins upphafið," segir Valgerður.

Valgerður bendir ennfremur á: "Í viðtali á laugardagskvöldið kom fram hjá Kolbrúnu Halldórsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, að þarna hafi verið um fólk að ræða sem aðhylltist stefnu Vinstri grænna og þess vegna teldi hún líklegt að þau fengju 3 menn kjörna í borgarstjórn. Það gerðist reyndar ekki en eflaust er það rétt hjá Kolbrúnu að hópurinn sem þarna gekk saman hafi tengst Vinstri grænum enda vart tilviljun að þessi mótmæli hafi borið upp á kjördag. Ég býst við að sveitarstjórnarfulltrúar Vinstri grænna um allt land séu stoltir af þessum gjörðum þegar þeir og stuðningsmenn þeirra á þessum degi hvöttu til þess að mér yrði drekkt.

Það vekur athygli mína að þessi stóru orð skulu hafa birst í fjölmiðlum án þess að það hafi orðið sérstakt fréttaefni þegar mótmælendur hafa uppi svo alvarlegar hótanir í garð nafngreindra einstaklinga. Sú spurning virðist ekki hafa vaknað hvort allt sé orðið leyfilegt gagnvart ráðherrum eða öðrum, sem eru að vinna skyldustörf sín og framfylgja ákvörðun Alþingis eins og um er að ræða varðandi byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þá framkvæmd samþykktu 44 þingmenn en 9 voru á móti. Orkufyrirtæki, sveitarfélög, álframleiðendur og fulltrúar starfsmanna þeirra hljóta að íhuga hvort þau þurfi ekki að taka frekari þátt í þeirri umræðu sem nú á sér stað um stöðu þessarar atvinnugreinar í landinu og framtíð hennar. Þetta er umhugsunarefni þó að aðalatriðið sé það að þeir sem bera ábyrgð á mótmælagöngunni s.l. laugardag urðu sér til skammar og hafa að mínu mati farið á svig við íslensk lög."