Fjármálatímaritið Financial Times skilgreinir eignabólu sem svo mikla samfellda verðhækkun eigna að verðið samræmist ekki lengur undirliggjandi virði viðkomandi eignar. Þegar ljóst sé orðið að ekki er fótur fyrir verðinu verði verðhrun svo óumflýjanlegt, og þá „springi“ bólan. Til að skera úr um hvort það eigi við um ævintýralega hækkun Bitcoin síðasta haust, og þá hægu og bítandi lækkun sem átt hefur sér stað í kjölfarið, þarf hins vegar að leggja mat á undirliggjandi virði Bitcoin. Það getur hins vegar reynst snúið, þar sem erfitt er að benda á mælanlega, áþreifanlega þætti í því sambandi; virði rafmyntarinnar virðist vera nánast alfarið huglægt, jafnvel hreinlega hugmyndafræðilegt.

„Það er ekkert annað en tiltrú manna sem heldur uppi verði Bitcoin. Það er mjög magnað, af því að þetta er nýtt kerfi sem hefur aldrei sést áður. Fyrir 10 árum þegar þetta kemur út er í raun verið að leysa fullt af vandamálum í tölvunarstærðfræði, dulmálsfræðum og fleira, sem hefur aldrei verið hægt að leysa áður. Það var aldrei hægt að búa til traust án milliaðila. Ástæðan fyrir því að þetta er komið svona langt er að stórum hluta útaf því að margir eru að horfa þetta allt öðrum augum en einhverja fjárfestingu. Það eru mjög margir sem kaupa sig inn í þetta af hugsjón. Þeim finnst vanta ný kerfi eða nýja hugsun innan núverandi kerfis, og þar kemur Bitcoin sterkt inn. Það má segja að það sé einn af þeim hestum sem hægt er að veðja á í því samhengi,“ segir Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands.

Kostir og gallar við milliliðalaust kerfi
Kristján segir að vissulega geti verið ókostir við milliliðalaust kerfi. Til dæmis þegar svindlarar ná að plata af fólki peninga. „Þetta er svona tvíeggjað sverð. Það er ekki hægt að snúa neinum færslum við, sem getur verið erfitt þegar svona tilvik koma upp. Þá er enginn sem getur hjálpað þér.“

Rafmyntir hafa einnig verið gagnrýndar fyrir að vera sérstaklega viðkvæmar fyrir markaðsmisnotkun. Kristján viðurkennir að fjársterkir aðilar geti haft töluverð áhrif á verðmyndun Bitcoin til skamms tíma. „Orðið á götunni hjá innherjum er að nú sé verið að hrista út síðustu aðilana sem hafa verið að stunda námuvinnslu, en hafa ekki haft nóg upp úr henni eins og verðið er núna. Þeirra þröskuldur er kannski í kringum 6.000, þannig að ef Bitcoin fer í 3.000 í nokkrar vikur þá slökkva þeir bara á vélunum og jafnvel losa sig við búnaðinn.

Það er verið að tala um að af því að þetta var bara í kringum 6.000 hafi mögulega eitthvert stórt bandalag tekið að sér að keyra niður verðið til að ná yfirráðum og hafa stjórn á þessu þegar næsti leggur upp fer í gang.“

Hann segir þetta þó ekki vandamál sem einskorðist við rafmyntir. „Það er enginn markaður í heiminum sem er hægt að verja fyrir markaðsmisnotkun. Það kom til dæmis í ljós fyrir nokkrum árum að LIBOR-vextir voru skekktir af bönkunum, sem er dýpsti markaður í heiminum með um 350 þúsund milljarða dollara fjármálagerninga sem nota þá sem viðmiðunarvexti.“

„Það er hins vegar alveg rétt að það vantar alveg reglur, sérstaklega á þessar kauphallir. Þær hafa nú verið mjög samvinnuþýðar við þá opinberu aðila sem biðja þær um upplýsingar, og hafa reynt að stöðva sýndarviðskipti, en það þarf miklu meira. Þetta er svolítið villta vestrið af því að þetta er ennþá svo nýtt.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .