*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Erlent 4. ágúst 2018 12:03

Er bitið farið úr FANG?

Uppgjör Facebook, Amazon, Netflix og Google fyrir annan ársfjórðung fóru misjafnlega vel í fjárfesta.

Ástgeir & Júlíus
Mark Zuckerberg tapaði persónulega yfir 15 milljörðum dollara, um tvöföldum fjárlögum íslenska ríkisins 2018, á einum degi um daginn.
epa

Facebook, Amazon, Netflix og Google (Alphabet) skiluðu á dögunum uppgjöri fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Fyrirtækin fjögur, sem oftast ganga undir nafninu FANG og vísar til upphafsstafa þeirra, hafa verið mikið í sviðsljósinu enda hefur hlutabréfaverð þeirra allra hækkað mikið undanfarin misseri. Á síðustu tveimur árum hefur Facebook hækkað um 39%, Google um 55%, Amazon um 134% og Netflix um 270%. Hlutabréfasafn sem samanstæði af þessum fjórum félögum til jafns hefði skilað um 125% ávöxtun á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 29,6%.

Í byrjun árs 2014 nam samanlagt markaðsvirði fyrirtækjanna fjögurra um 750 milljörðum dollara. Við lokun markaða þann 30. júlí nam markaðsvirði þeirra hins vegar um 2.360 milljörðum dollara eða um 248 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Facebook gerir ráð fyrir minni vexti
Þrátt fyrir að Facebook hafi skilað 5,1 milljarða dollara hagnaði á öðrum ársfjórðungi, með tekjur upp á rúmlega 13 milljarða, lækkaði gengi hlutabréfa félagsins um 20% daginn eftir uppgjörið sem var birt þann 25. júlí. Hagnaður samfélagsmiðlarisans jókst þó um 31% frá sama tímabili í fyrra og tekjur um 42%.

Lækkunin skóf um 120 milljarða dollara af markaðsvirði félagsins, sem er mesta lækkun á markaðsvirði hjá einu fyrirtæki á einum degi í sögunni. Helsta ástæða lækkunarinnar var sú að vöxtur tekna og notendafjölda var minni en greinendur höfðu gert ráð fyrir, í fyrsta sinn síðan árið 2015. Þessu til viðbótar upplýsti David Wehner, fjármálastjóri Facebook, að stjórnendur fyrirtækisins gerðu ráð fyrir að áfram myndi hægja á tekjuvexti á seinni helmingi ársins auk þess sem gert væri ráð fyrir því að rekstrarhagnaðarhlutfall (e. operating margin) myndi dragast saman til meðallangs tíma.

Vonbrigði hjá Netflix
Uppgjör Netflix var heldur ekki til þess að gleðja tæknifjárfesta. Hagnaður streymisveitunnar nam 384 milljónum dollara á fjórðungnum á meðan tekjur námu 3,9 milljörðum dollara, sem var nokkuð í takt við væntingar greiningaraðila. Það sem fór hins vegar illa í fjárfesta var að nýjum áskrifendum fjölgaði aðeins um 5,2 milljónir á tímabilinu, vel undir þeim 6,2 milljónum sem stjórnendur Netflix höfðu gert ráð fyrir. Þar af voru tæplega 700 þúsund í Bandaríkjunum en um 4,5 milljónir annars staðar í heiminum, og er heildarfjöldi notenda nú um 130 milljónir.

Þá gáfu stjórnendur það einnig út að þeir reiknuðu með því að hægja myndi á fjölgun áskrifenda. Í kjölfarið lækkaði gengi hlutabréfa félagsins um 14% á eftirmarkaði. Daginn eftir uppgjörið tóku fjárfestar hins vegar við sér og nam heildarlækkun við lok markaða einungis 5%. Viðhorf markaðsaðila virðist þó hafa breyst við uppgjörið, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um rúm 16% frá því að það var birt þann 16. júlí síðastliðinn.

Þrátt fyrir minni vöxt hyggjast stjórnendur Netflix enn fjárfesta í nýju efni fyrir 8 milljarða dollara á þessu ári. Stjórnendur hafa lagt mikla áherslu á að fjárfestingar í nýjum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum séu lykilatriði við að laða að nýja notendur og viðhalda þeim sem fyrir eru. Sérstaklega þegar fyrirtækið stendur frammi fyrir mikilli samkeppni frá fyrirtækjum á borð við Walt Disney, YouTube, Amazon og nýlegri samsteypu AT&T og Time Warner.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Facebook Netflix FANG