Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marel, segir að huga þurfi vel að því hvað sé til skiptanna í komandi kjaraviðræðum í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum, bæði hér á landi og erlendis. Þetta kom fram í ræðu Árna á iðnþingi Samtaka iðnaðarins í dag. Árni benti á að afleiðingar kreppunnar í kjölfar heimsfaraldurs hafa meðal annars komið fram í aukinni verðbólgu, hækkandi vaxtastigi og hækkandi hráefniskostnaði. „Við þetta bætist nú hin alvarlega staða sem komin er upp vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem skapar mikla óvissu, óstöðugleika og kostnaðarhækkanir sem hefur samstundis veruleg neikvæð áhrif á heimsbúskapinn. Þau smitast svo yfir í hagkerfi einstakra landa, þar með talið okkar. Þessi erfiða staða einfaldar ekki komandi kjaraviðræður, þegar spurt verður „hvað er til skiptanna?“ eða öllu heldur „er eitthvað til skiptanna?“. Þetta er einfaldlega reikningsdæmi sem gengur ekki upp,“ sagði Árni.

Hins vegar hafi að aðilar vinnumarkaðarins einna mesta möguleikann á að grípa til mótvægisaðgerða gegn neikvæðri verðbólguþróun með samstilltu átaki. Þannig megi stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum og viðhalda því lágvaxtaumhverfi sem ríkti hafi hér á landi um stundarsakir.

„Gleymum því ekki að við eigum margt sameiginlegt, atvinnurekendur og launþegar, og ættum því að geta snúið bökum saman í ýmsum framfaramálum, til að mynda í húsnæðismálum þar sem framboð á nýju húsnæði hefur langt í frá fullnægt eftirspurn síðustu árin, sem hægt er að rekja til vaxtalækkana og aukins kaupmáttar landsmanna. Sú staða hefur leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði sem drífur áfram um þriðjung verðbólgunnar. Þar er verk að vinna, eins og við höfum verið óþreytandi að benda á,“ sagði Árni.

„Þá er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins geti átt yfirvegað samtal um hvaða áhrif hinar breyttu stoðir útflutnings hafa á vinnumarkaðinn, tækifærin sem fram undan eru, til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að efla velsæld landsmanna og hvernig vinnumarkaðurinn geti sem best stuðlað að vexti hagkerfisins, öllum til heilla. Nú sem aldrei fyrr er mikið í húfi fyrir alla aðila, að vel takist til í þessari lotu kjaraviðræðna,“ bætti hann við.