Blikur eru á lofti um að fasteignaverðsbólan í Dubai kunni að vera að springa. Á vefsíðu Economist í gær er greint frá því að vangaveltur um “hvort” bólan muni springa hafi snúist yfir í það þessa vikuna “hversu stór” hvellurinn verði. Sumir skelkaðir bankamenn óttist nú að fasteignaverð í Dubai kunni að falla um 80% eða svo næsta árið.

Economist bendir á að aðeins séu fáir mánuðir síðan ríkir erlendir fasteignakaupendur hafi haft meiri áhyggjur af gæði sandsins á tilbúnum ströndum hinna manngerðu eyja við borgina sem eru í lögun eins og pálmatré. Það sé nú að breytast því síðan í september hafi verðmiðinn á sumum snilldarverkefnunum lækkað um 40%. Þá hafi verð á hlutabréfum í fasteignafélögum lækkað um 80% síðan í júní og stórir byggingaverktakar séu farnir að segja upp starfsfólki.

Economist segir að bankar á svæðinu komi til með að þjást vegna þessa. Samt séu yfirvöld enn að gefa út yfirlýsingar um að lánsfjárkreppan komi til með að hafa lítil áhrif á svæðinu.  Yfirvöld tali hins vegar lítið um þær gríðarlegu fjárfestingar sem átt hafi sér stað á svæðinu í gegnum íslamska banka. Þá er sagt að handtökur háttsettra viðskiptamanna vegna rannsókna á fjárfestingasvikum sé líka farnar að hrista upp í mörgum. Jafnvel sé talað um að þarna kunni að vera í uppsiglingu einskonar “Persaflóa Enron” hneyksli.