Í vikunni var haldinn fundur á vegum Alþjóð­legrar kvikmyndahátíð­ar í Reykjavík (RIFF) þar sem fjallað var hvort íslenskar kvikmyndir væru æskilegur fjárfestingarkostur. Fjölbreyttur hópur tók þátt í pallborðsumræðum, þeirra á meðal voru fjárfestirinn Heiðar Guðjónsson, leikstjórinn Baltasar Kormákur og kvikmyndaframleiðandinn Grímar Jónsson.

Á fundinum kom fram að á síðustu árum hefði velta í kvikmyndageiranum stóraukist, fjöldi kvikmynda sem væru í framleiðslu hefði aukist og að kvikmyndir sem framleiddar væru án aðkomu kvikmyndasjóðs hefðu einnig aukist. Mikil gróska er því greinilega í íslenskri kvikmyndagerð en ljóst var á reynslu þátttakenda að hægt er að vænta ágætrar ávöxtunar á fjárfestingu í kvikmyndum.

Það er þó ekki sjálfgefið að kvikmyndir skili hagnaði samkvæmt Grímari Jónssyni kvikmyndaframleiðanda. Hann tók fram að hlutfall þeirra sem skila hagnaði eða tapi sé svipað og fjárfestingar hjá framtakssjóðum í fyrirtækjum, sex kvikmyndir tapa peningi, þrjár koma á sléttu og ein þeirra hagnast nóg til að bæta upp fyrir allar hinar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .