Ítalía og Spánn eru þriðja og fjórða stærsta hagkerfi evrusvæðisins.

Álagið á ítölsk ríkisskuldabréf var við lokun markaða í gær 6,13% og 6,28% á spænsk bréf samkvæmt Bloomberg. Þegar markaðir opunuðu í morgun fór álagið á þau ítölsku upp í 6,23% en stendur nú í 6,07%. Álagið á skuldabréf Spánar fóru hæst í 6,42 í morgun og stendur nú í  6,21%.

Það veldur ítölskum ráðamönnum áhyggjum hversu mikið þarlendir bankar hafa fallið í verði undanfarið. Þeir eru stærstu kaupendurnir ítalskra ríkisskuldabréfa og líkur eru á að þeir séu orðnir áhættufælnir og dragi verulega úr þátttöku sinni í skuldabréfaútboðum ítalska ríkisins. Seðlabanki Evrópu gefur ekki upp hvort og þá hversu mikið hann grípur inn í eftirmarkað með skuldabréf evruríkjanna.

Fjármálaráðherra Ítalíu fundar í dag Jean-Claude Juncker, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna.

Gætu Ítalía og Spánn farið sömu leið og Grikkland, Írland og Portúgal

Þegar Grikkir óskuðu eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í apríl í fyrra fullyrtu ráðamenn í Evrópu að engin hætta væri á að ástandið í Aþenu myndi smitast yfir til þeirra evrulanda sem verst væru sett fjárhagslega.

Aðeins sjö mánuðum seinna, í nóvember í fyrra, óskuðu Írar svo eftir aðstoð AGS og Evrópusambandsins. Þá var fullyrt að nýju að vandinn væri einangraður við Írland.

Í byrjun ársins komu fram áhyggjur um að Portúgal þyrfti aðstoð neyðarsjóðs ESB. Elena Salgado fjármálaráðherra Spánar sagði af því tilefni þann 10. janúar að Portúgalir þyrftu ekki aðstoð vegna þeirra umbóta sem gerðar höfðu verið á fjárhag ríkisins. Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, sagði þann 25. mars að landið þyrfti líklega ekki á fjárhagslegri aðstoð að halda. Salgado og Juncker reyndust ekki sannspá. Portúgalir fengu neyðarstoð frá ESB og AGS í byrjun maí.

Elena Salgado fjármálaráðherra Spánar sagði eftir beiðnina um aðstoð frá Portúgal að Spánn væri ekki í hættu og reyndi þar með að róa fjármálaheiminn.

Í tilviki Grikklands, Írlands og Portúgals neyddust öll ríkin til að óska eftir aðstoð þegar lánsfjármarkaðir lokuðust, eftir að álag á skuldabréf landanna hafði hækkað mikið. Þetta gerðist þegar álagið hélst í 6-7% á ríkisskuldabréf landanna þriggja.  Ítölsku og spænsku ríkisskuldabréfin eru nú komin á þær slóðir.

Spurningin er hvort grískur harmleikur sé í uppsiglingu eða hvort Ítalíu og Spáni takist að ná tökum á ástandinu.