Velta á gjaldeyrismarkaði er lítil sem fyrr og þarf því ekki marga eða stóra seljendur gjaldeyris til að styrkja krónuna þessa daganna segja sérfræðingar á markaði. Það virðist engin ein sérstök skýring á styrkingu krónu síðustu daga en hún styrktist um eitt prósent í dag.

Þó tína sérfræðingar til þrjá áhrifaþætti sem gætu skipt máli: Í fyrsta lagi þann frið sem skapast hefur um Seðlabankann eftir ráðningu nýrra bankastjóra og peningastefnunefndar, en sér í lagi virðast erlendir aðilar taka fréttunum vel.

Í öðru lagi eru nýlegar tölur um vöru- og þjónustuviðskipti til marks um jákvæðan viðsnúning sem styrkir menn í trúnni á að utnaríkisviðskiptin hjálpi til við að styrkja krónuna þegar frá líður.

Í þriðja lagi eru væntingar meðal sumra markaðsaðila um að höftin verði langvinnari og vextir háir lengur en hingað til hefur verið talið. Þó eru reyndar mjög skiptar skoðanir um þetta síðast talda atriði.