Eftir ágætt ár á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum tóku þeir skarpa dýfu í haust og enduðu árið lægri en þeir hófu það í fyrsta sinn síðan í fjármálahruninu fyrir áratug.

S&P 500 vísitalan féll um rúm 9% í síðasta mánuði – sem er versti desembermánuður hennar síðan 1931, nokkrum mánuðum áður en hún náði botninum í kreppunni miklu – og lækkaði um 6,2% yfir árið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á miðvikudag að lækkanirnar væru „galli“ í hlutabréfamarkaðnum, sem myndi leiðréttast um leið og viðskiptasamningar næðust við Kína og fleiri lönd. Þá lagði hann áherslu á að þrátt fyrir lækkanirnar stæðu markaðir enn um 30% hærra en þegar hann tók við forsetaembættinu. „Markaðurinn mun rísa á ný þegar við göngum frá viðskiptasamningum og nokkrir aðrir hlutir gerast. Hann á mikið inni,“ sagði forsetinn, en útskýrði ekki nánar við hvað hann ætti með „aðrir hlutir“.

Helstu ástæður skyndilegrar svartsýni fjárfesta eru sagðar vera áhyggjur af stigmögnun tollastríðs Bandaríkjanna og Kína, herðing peningastefnu helstu viðskiptamynta heimsins og versnandi hagvaxtarhorfur.

Í nýlegu bréfi Tim Cook, forstjóra Apple, til fjárfesta, segir hann minnkandi eftirspurn eftir vörum tækjarisans í Kína eina helstu ástæðu þess að afkoman var verri á síðasta fjórðungi en spáð hafði verið. Lakari afkoma Apple er sögð til marks um að fullyrðingar Trumps um að tollastríð við Kína hefði lítil áhrif á bandarískan efnahag hafi ekki verið á rökum reistar.

Á sviði peningamála voru stýrivextir hækkaðir fjórum sinnum í Bandaríkjunum á árinu – eftir tæpan áratug af miklum slaka í peningastefnu í kjölfar fjármálakrísunnar – Trump til mikillar gremju, en hann sagði Jay Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, „galinn“ um daginn, sem gerði lítið til að draga úr áhyggjum fjárfesta. Þá hafa hagvaxtarhorfur á alþjóðavísu farið versnandi síðustu misseri, einkum í Kína og Evrópu.

Bjarnarmarkaður í jólagjöf
Í upphafi árs 2018 voru horfur á hlutabréfamarkaði þokkalegar. Markaðurinn hafði hækkað síðustu níu ár samfellt, eða allt frá fjármálakrísunni, og tæknirisarnir fimm, sem gjarnan eru þekktir sem FAANG (Facebook, Amazon, Apple, Netflix og Google) héldu áfram að leiða hækkanir, en þeir höfðu hækkað sérstaklega mikið undanfarin ár.

Í febrúar settu vaxandi verðbólga og vandræði hjá Facebook og Google strik í reikninginn, en undir lok fyrsta ársfjórðungs hafði markaðurinn jafnað sig á því og hélt áfram að hækka yfir sumarið, og undir lok þriðja ársfjórðungs var S&P 500 vísitalan farin að sleikja 3000 stig.

Gamanið kárnaði hins vegar hratt á lokafjórðungnum. Vísitalan féll um rétt tæp 7% í októbermánuði, og eftir sveiflukenndan nóvembermánuð, sem þó skilaði örlítilli hækkun, hélt fallið áfram í desember. Þegar verst lét á aðfangadag hafði vísitalan fallið um rúm 20% frá því að hún stóð hæst í lok september, og uppfyllti þannig skilyrði bjarnarmarkaðar (e. bear market). Við lokun markaða seinna um daginn hafði hún þó klórað sig aftur upp fyrir 20% þröskuldinn, en hafði þrátt fyrir það lækkað um 2,7% þann daginn, og um tæp 15% frá mánaðamótum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .