Vísindavefur Háskóla Íslands náði merkum áfanga í morgun þegar 10 þúsundasta svarið var birt á vefnum. Það var svar við spurningunni: Er hægt að keppa í fegurð og eru fegurðarsamkeppnir og módelfitness íþróttagreinar?

Vísindavefnum var hleypt af stokkunum 29. janúar árið 2000 og er því liðlega 13 ára gamall, en fram kemur á vefnum að honum hafi upphaflega verið tjaldað til eins árs.

Að meðaltali sækja rúmlega 20 þúsund notendur Vísindavefinn í hverri viku og er hann einn af vinsælustu vefsíðum landsins. „Duglegustu spyrjendurnir eru yfirleitt á aldrinum 10-20 ára. Yfirleitt berast um 50-100 nýjar spurningar á viku svo ljóst er að áhugi almennings á vísindum og fróðleik af því tagi sem er að finna á Vísindavefnum er mikill,“ segir í frétt á Vísindavefnum í tilefni tímamótanna.

Hvað varðar svarið við 10 þúsundustu spurningunni segir á Vísindavefnum: „Þessari spurningu væri hægt að svara á einfaldan hátt: Hvorki fegurðarsamkeppni né módelfitness eru í raun keppnisíþróttir á Íslandi. Þær eru ekki skilgreindar af Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands sem íþróttir og samkvæmt þeim mælikvarða er þá ekki hægt að keppa í fegurð sem sé hún íþrótt.“