Ný skýrsla um arðsemi hótelgeirans á Íslandi verður kynnt á fundi KPMG á miðvikudaginn. Í skýrslunni kemur fram að afkoma hótelrekstraraðila er misgóð eftir staðsetningu og að markviss uppbygging sé mikilvæg til að stuðla að betri arðsemi í greininni. Í úttekt Viðskiptablaðsins, sem birtist í febrúar, kom fram að á næstu þremur til fjórum árum munu ríflega 1.500 ný hótelherbergi bætast við hótelmarkaðinn í Reykjavík.

Óhætt er að tala um sprengingu því í dag eru um 3.100 hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn hefst í húsnæði KPMG í Borgartúni klukkan 8.30. Á meðal ræðumanna verða Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri ráðgjafasviðs KPMG, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Renato Gruenenfelder, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar.