Það blasir við að kaupaukar í bönkunum hækki um 400% nái frumvarp fjármálaráðherra fram að ganga, að mati Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hann mælti með því í hádegisfréttum RÚV að réttast væri að staldra við og bíða með að láta ákvæðið taka gildi. Gylfi er handviss um að stjórnendur banka fái verulegar kaupaukahækkanir fljótlega eftir að lögin verði samþykkt.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í gær að Bjarni Benediktsson hafi lagt fram stjórnarfrumvarp sem opni á fjórföldun á kaupaukum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Ef frumvarpið verður að lögum þá má veita starfsmönnum kaupauka sem nemur allt að 100% af árslaunum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ef kaupauki á að vera hærri en 25% af árslaunum þá þurfi heimild hluthafafundar til að hækka hlutfallið upp í 100%. Til að fá slíka heimild þarf samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða hluthafa ef atkvæði greiða þeir sem ráða að minnsta kosti yfir helmingi hlutafjár.

Bjarni taldi í viðtali í morgun ekki ástæðu til að banna alfarið kaupauka enda geti það leitt til launaskriðs í fjármálageiranum. Með frumvarpinu sé m.a. reynt að stemma stigu við því.

Í fréttum RÚV gagnrýndi Gylfi ákvæðið um að tveir þriðju hluthafa geti samþykkt heil árslaun í kaupauka í ljósi þess að allir stóru bankarnir séu nánast í eigu eins aðila.