Nú þegar 10 dagar eru til kosninga gefa skoðanakannanir til kynna að Obama sé með um 10% meira fylgi en McCain. Samkvæmt skoðanakönnun Reuters/ Zogby sem birt var á miðvikudaginn sl. nýtur Obama stuðnings 51,6% kjósenda en McCain 42%. Í það heila benda kannanir til þess að forskot Obamas sé á bilinu 6-14%. Kjósendur geta nú greitt atkvæði í 31 fylki og gefur kjörsókn fram að þessu tilefni til þess að ætla að möguleikar McCains á sigri fari hratt minnkandi.

Í þremur af helstu baráttufylkjunum, Flórída, Norður-Karólínu og Nevada, hafa tvöfalt fleiri demókratar mætt á kjörstað. Biðraðir við kjörstaði benda til þess að mun fleiri skili inn atkvæði sínu áður en kjördagur rennur upp en hingað til hefur tíðkast. Í kosningunum 2004 greiddu 20% kjósenda atkvæði snemma borið saman við 15% árið 2000. Dálkahöfundurinn Charlie Cook skrifar í National Journal í vikunni að líklega muni þriðjungur kjósenda greiða atkvæði snemma og þar með séu æ færri kjósendur eftir sem McCain getur snúið til fylgis við sig.

Kosningagreinendur eru einnig nær samhljóða um að spá Obama sigri og gildir þá einu hvorn frambjóðandann þeir styðja. Vin Weber, einn helsti greinandi og spámaður repúblikana, segist til að mynda ekki vera bjartsýnn á niðurstöðuna: „Ef ég á að gerast spámaður, myndi ég spá Obama sigri – jafnvel miklum sigri.“ Á miðvikudaginn spáðu flestir greinendur að Obama myndi njóta stuðnings 350 kjörmanna, en til að ná kjöri þarf frambjóðandi að hafa 270 kjörmenn á bak við sig.

Ekki búið fyrr en það er búið

Enginn frambjóðandi í sögunni hefur orðið af sigri með forskot eins og Obama nýtur nú í kosningunum. Í augum margra eru sjálfar kosningarnar því nánast formsatriði – úrslitin eru svo gott sem ljós. Obama reynir þó hvað hann getur til þess að koma í veg fyrir að værð leggist yfir herbúðir sínar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .