*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 23. nóvember 2004 10:48

Er hlutabréfamarkaðurinn vannýtt auðlind?

ráðstefna Kauphallar Íslands um sjávarútveg

Ritstjórn

Kauphöll Íslands stendur fyrir ráðstefnu á Nordica hotel þriðjudaginn 30. nóvember frá klukkan 13-16. Á ráðstefnunni verða meðal annars kynntar niðurstöður greiningar Friðriks Más Baldurssonar prófessors við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands á sögu sjávarútvegsfyrirtækja og þróun viðskipta með hlutabréf þeirra í Kauphöll Íslands frá upphafi.

Á ráðstefnunni verður ennfremur fjallað um hvort leyfa eigi beina erlenda fjárfestingu í greininni og hvort kvótaþakinu verði lyft. Einnig verður ljósi varpað á þróunina frá sjónarmiði Kauphallarinnar, fjárfesta og greinarinnar.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar setur ráðstefnuna. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra fjallar um innlendar og erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. Einnig flytja Kristján Þ. Davíðsson, aðstoðarforstjóri HB Granda, og Yngvi Örn Kristjánsson, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbanka Íslands, erindi á ráðstefnunni.

Pallborðsumræður fara fram að loknum flutningi erinda. Þátttakendur í pallborðsumræðum eru: Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, Þórður Pálsson, forstöðumaður Greiningardeildar KB banka, Gylfi Magnússon, dósent við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Fundarstjóri er Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbanka Íslands.