Hanna Kristín Skaftadóttir var nýlega ráðin fjármálastjóri hjá Skema en hún hefur frá árinu 2013 byggt upp Mimi Creations ásamt Hjalta Kr. Melsted, sem sérhæfir sig í útgáfu barnabóka fyrir málhömluð börn. „Ég leitaði til Skema til að gefa út stafrænt efni fyrir málhömluð börn. Rakel [Sölvadóttir framkvæmdastjóri Skema] kom að MiMi Creations sem ráðgjafi og fljótlega komum við á samstarfi þar sem samlegðaráhrif beggja fyrirtækjanna myndu nýtast til góða fyrir börnin sem við störfum með og fyrir.“

Tók við stöðu fjármálastjóra

Hanna Kristín segir að starfsemi Skema hafi aukist mikið á skömmum tíma og að samstarf þeirra hafi gengið mjög vel. „Rakel hefur verið að sinna auknum umsvifum Skema og framundan er samstarfsverkefni sem verður kynnt á BETT ráðstefnunni í janúar með Mentor. Einnig hefur Rakel verið að fylgja eftir fjölda samstarfssamninga sem snúa að Evrópumarkaði. Þar sem ég var komin með hálfan fótinn inn til Skema þá lá vel við af beggja aðila hálfu að ég tæki við starfi fjármálastjóra og það mun styrkja enn frekar starfsemi MiMi Creations og Skema,“ segir Hanna Kristín. En hún er með með M.Sc. gráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík og stundaði nám við Stanford háskóla í Kaliforníu þar sem hún sérhæfði sig í þroskasálfræði og tungumálafræðum.

Óð í sjóinn

Hanna Kristín hefur gaman af sjósundi. „Ég fer alltaf einu sinni í viku, sama hvernig viðrar, vetur eða sumar. Þetta passar vel við hlaupin, styrkir líka hugann að geta vaðið út í kaldan sjóinn. Þetta eflir ónæmiskerfið og hefur slakandi áhrif á vöðvana, tekur á bólgum í líkamanum hjá þeim sem eru mikið að hlaupa., Það hefur myndast ákveðinn hópur í kringum sjósundið, þetta er skemmtilegur félagsskapur.“ Hanna Kristín er á leiðinni til Kaliforníu í byrjun janúar, þar sem hún mun sinna verkefnum fyrir bæði Skema og MiMi Creations. „Bæði er ég að fara að hitta kennara við Stanford háskóla og kynna starfsemi MiMi Creations og Skema,“ segir Hanna Kristín. „Þetta er ævintýralega skemmtilegt, draumastarfið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .