*

föstudagur, 18. júní 2021
Fólk 8. október 2017 19:04

Er í fimm saumaklúbbum

Hrönn Óskarsdóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Árnasynir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Áður en Hrönn Óskarsdóttir var ráðin í starf framkvæmdastjóra Árnasona sá hún um daglegan rekstur auk ráðgjafastarfa hjá Aton.

„Ástæðan fyrir ráðningu minni hér er að við erum auglýsingastofa sem er að vaxa. Nú erum við orðin tólf starfsmenn og vildum við að sérhæfing okkar væri meiri svo að við gætum boðið eins góða þjónustu og mögulegt er,“ segir Hrönn sem er ánægð með nýja starfið.

Þar starfar hún meðal annars við hlið eigandans og stofnandans Árna Árnasonar sem áður sinnti jafnframt framkvæmdastjórn.
„Þó að mér hafi fundist rekstrarstjórnun og allt í kringum það mjög skemmtileg hjá Aton þá hafði hugurinn alltaf stefnt í markaðsstörfin og þau heillað mig meira.“

Hrönn fór á sínum tíma út til Danmerkur að læra markaðshagfræði en kom svo heim og fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. „Við vorum í Árósum í tvö ár og þó að það sé alltaf æðislegt að hitta alla fjölskyldu sína og vini hérna heima eftir vinnu og svona, þá styrkti það mjög mikið okkar fjölskyldubönd innbyrðis að þarna vorum bara við ein,“ segir Hrönn.

„En ég er ekki týpa sem gæti verið í burtu frá öllum lengi, þó það hafi verið gott að prófa það.“ Hrönn er gift Júlíusi Hafstein og saman eiga þau þrjá stráka.

„Utan vinnu fer náttúrulega mikill tími í að halda utan um heimilið. Elsti strákurinn minn er sextán ára, einn er að verða tólf ára og svo er ég með einn lítinn þriggja ára sem stjórnar heimilinu,“ segir Hrönn, en þess utan leggur hún einnig stund á meistaranám í viðskiptafræði í HÍ með vinnu.

„Svo er ég í fimm saumaklúbbum, sem er gott að hafa sem jafnvægi á móti því að búa með fjórum karlmönnum. Þetta eru skólahópar úr Austurbæjarskóla, úr Versló og alls staðar að, við erum duglegar að hittast nokkrir saumaklúbbar í hverjum mánuði.“

Spurð út í hvort mikið sé saumað í saumaklúbbunum hlær hún við. „Bara nákvæmlega ekki neitt. Ég hef verið í saumaklúbbi í tuttugu ár en það hefur aldrei ein manneskja saumað í þeim,“ segir Hrönn sem segir alla hluti vera þar til umræðu. „Bæði létt og viðkvæm málefni eru rædd í saumaklúbbum. Það eru margir karlmenn sem vilja vera þar fluga á vegg.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.