Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga boðar til hádegisverðarfundar í dag undir yfirskriftinni: Er íslensk hagfræði alþjóðlegt viðundur? Aðalfyrirlesari er Andri Snær Magnason rithöfundur sem meðal annars fjallar um mynd sína Draumalandið.

Andri Snær mun velta upp á hvaða framtíðarsýn skuli byggja eftir hrunið. Við framleiðum fimm sinnum meiri raforku á mann en nágrannalöndin, veiðum hlutfallslega meiri fisk en nokkur annar og þöndum efnahagskerfið til hins ítrasta í bönkunum og fórum einhverra hluta vegna á hausinn. Hvað eigum við að gera? Hvar erum við smærri miðað við höfðatölu? Verður íslensk hagfræði alþjóðlegt viðundur eða skilur hrunið eftir óvænta möguleika? Er hægt að reikna út störf í framtíðinni í réttu hlutfalli við aukna auðlindanýtingu? Á hvað höfum við ekki lagt áherslu? Hvar liggja mestu vannýttu auðlindirnar og tækifærin? Hefur Ísland einhverja langtímastefnu eða snýst allt um að fleyta sér milli ára - eða ársfjórðunga?  Hverjum hentar best slíkt stefnuleysi?

Andri Snær mun sýna brot úr mynd sinni og Þorfinns Guðnasonar - Draumalandið sem nú er sýnd í Smárabíó og Háskólabíó.