Fá ríki í Evrópusambandinu og OECD eyða hærra hlutfalli landsframleiðslu sinnar í menntamál og Ísland, en mikill munur er á Íslandi og meðaltalinu hvað varðar dreifingu þessara fjármuna innan skólakerfisins. Þegar útgjöld hér eru borin saman við hin Norðurlöndin sést að Íslendingar eyða hlutfallslega meiru í leik- og barnaskóla og eru mjög ofarlega í útgjöldum á grunnskólastigi almennt. Hins vegar dragast Íslendingar aftur úr í útgjöldum á háskólastigi.

Raunar eyddi ekkert EES-ríki jafnstórum hluta vergrar landsframleiðslu í menntun á leikskóla- og barnaskólastigi og Ísland.

Kemur þetta fram í samantekt hagstofu Evrópusambandsins Eurostat frá árinu 2012, en byggt er á tölum frá árinu 2008. Sést þar að í raun kemst ekkert land með tærnar þar sem Ísland hefur hælana í útgjöldum á leikskólastigi, um ríflega 1,1% af vergri landsframleiðslu var varið í þetta skólastig hér á landi samkvæmt tölum Eurostat árið 2008. Til samanburðar vörðu Danir um 0,9% af sinni landsframleiðslu í þetta menntunarstig, Svíar um 0,7%, Norðmenn um 0,5% og Finnar um 0,4%. Meðaltal Evrópusambandsins var um 0,5% af vergri landsframleiðslu.

Ísland dregst aftur úr

Svipaða sögu er að segja af barnaskólastigi, en samkvæmt útreikningum Eurostat verja Íslendingar ríflega 2,5% af vergri landsframleiðslu sinni í menntun á þessu stigi. Af Norðurlöndunum eru Danir aftur okkur næstir, en þeir verja um 1,9% af sinni landsframleiðslu í þetta menntastig, Svíar verja 1,7% Norðmenn um 1,6% og Finnar reka aftur lestina með um 1,3% af vergri landsframleiðslu. Í úttekt Eurostat eru unglinga- og framhaldsskólastig sett í einn flokk, en miðað er við svokallaða ISCED flokkun á menntunarstigum. Á þessu stigi snýst dæmið við og Ísland tekur að dragast aftur úr, einkum ef miðað er við fleiri ríki en Norðurlöndin eingöngu.

Við vörðum um 2,4% af landsframleiðslu á þessu menntunarstigi, Svíar og Finnar verja þarna um 2,6% af sinni landsframleiðslu, Norðmenn um 2,3% og Danir 2,2%. Á háskólastigi dregur svo enn í sundur með Norðurlandaþjóðunum og þar eru útgjöld Íslendinga hlutfallslega minnst, eða um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Danir verja þarna um 2,2% af landsframleiðslu, Svíar 1,8%, Finnar 1,9% og Norðmenn 2,1%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .