Tölur yfir pantanir á innviðatæknibúnaði í júlí sem voru birtar í dag af hagstofu Japans sýna aukningu annan mánuðinn í röð. Er þetta talið merki um að japanska hagkerfið sé smátt og smátt að taka við sér.

Þvert á spár hagfræðinga

Pantanirnar, eða hinar svokölluðu „core orders“, jukust um 4,9% frá fyrra mánuði. Er það þvert á væntingar hagfræðinga um 3,1% lækkun sem Wall Street Journal og Nikkei hafði gert könnun meðal.

Ef horft er til árs aftur í tímann, hafa pantanirnar aukist um 5,2%.

Áhrif minnkandi hagvaxtar í Kína

Samkvæmt skýrslu stjórnvalda þá er hækkunin komin til að mestu frá þeim geira efnahagslífsins sem ekki er í iðnaðarframleiðslu. Framleiðsluaukningin kemur í kjölfar þess að fjárfestingar minnkuðu á fyrri helmingi ársins, vegna varkárni fyrirtækja í kjölfar minnkandi hagvaxtar í Kína.

Einnig höfðu áhyggjur af ákvörðun Bretlands að yfirgefa Evrópusambandið aukið á svartsýni fyrirtækja. Forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe hefur reynt að örva hagkerfið með því að fresta hækkun á söluskatti og með því að tilkynna um meiriháttar efnahagsaðgerðir fyrr í mánuðinum.

Hugveitan „Japan Center for Economic Research“, sem rannsakar hagvöxt býst við því að fjárfestingar muni haldast flatar á árinu.