Gengi krónunnar hækkaði um tæplega 3% á föstudaginn í kjölfar vaxtahækkunar Seðlabankans. Gengi krónunnar er nú hátt sögulega séð og þarf að fara aftur ríflega fjögur ár til að finna verðmeiri krónu gagnvart meðaltali þeirra mynta sem við eigum helst viðskipti með. "Hættan við núverandi efnahagsframvindu er sú að gengi krónunnar sé að ofrísa," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er net á að varla vill Seðlabankinn að slíkt gerist. Með því að kalla fram ofris krónunnar eru hliðarverkanir peningastefnunnar margfaldaðar - líkurnar á kröftugu bakslagi verða þá meiri þar sem atvinnuleysis myndast í því gati sem áður var útflutningsstarfsemi. Gengisfall, verðbólguskot, rýrnun kaupmáttar og samdráttur í efnahagslífinu væri þá endirinn á því hagvaxtartímabili sem nú ríkir. Verðbólgan verður þá lág á næstunni en einungis rétt þar til gengið gefur eftir.

"En Seðlabankinn stýrir ekki nema að mjög takmörkuðu leyti hvaða farveg aðhaldsaðgerðir bankans velja sér að verðbólgunni í landinu. Og þrátt fyrir hættuna á ofrisi krónunnar er rétt af bankanum við núverandi aðstæður að sýna sjálfstæði sitt og að hann hafi þor til að halda verðbólgunni lágri. Honum hefur verið sett 2,5% verðbólgumarkmið og mikið liggur á nú að bankinn nái niður verðbólguvæntingum og geri sitt til að tryggja að endurskoðun kjarasamninga á næsta ári leiði ekki til frekari launahækkana. Hliðarverkanirnar verða hins vegar miklar," segir í Morgunkorninu.

Þar segir einnig að ofris krónunnar við núverandi aðstæður væri ekki Seðlabankanum að kenna. "Mun frekar væri um að ræða afleiðingar ófullnægjandi aðhalds í opinberum rekstri. Staða krónunnar myndi þá lýsa rangri hagstjórnarblöndu þar sem of mikill þungi aðhaldsins væri borinn af Seðlabankanum og of lítill af ríki og sveitarfélögum.

Við þessar aðstæður vaknar sú áleitna spurning hvort það fyrirkomulag peningamála sem valið hefur verið tryggi efnahagsframvinduna sem best til lengri tíma litið. Þetta er eflaust sú spurning sem margir munu spyrja sig á næstu misserum, ekki síst stjórnendur og starfsmenn þeirra fyrirtækja sem helst munu blæða fyrir hátt gengi krónunnar," segir í Morgunkorninu.