Frá því að gengi krónunnar féll seinni partinn í febrúar eftir að lánshæfisfyrirtækið Fitch Ratings breytti lánshæfishorfum fyrir ríkissjóð úr stöðugum í neikvæðar, hefur krónan lækkað gagnvart evru um rúmlega 20%, segir greiningardeild Landsbankans.

?Að vissu leyti má segja að breytingar á gengi íslensku krónunnar hafi hrundið af stað lækkunum á gengi ýmissa mynta sérstaklega svokallaðra nýmarkaðsmynta (e. emerging market) á borð við tyrknesku líruna, ungversku forintuna og suður afríska randið, en allar þessar myntir hafa fallið umtalsvert á síðustu mánuðum," segir greiningardeild Landsbankans.

Erlendir fagaðilar flokka krónuna oft sem nýmarkaðsmynt. ?Nánari skoðun á gengi krónunnar síðustu mánuði og samanburður við þær nýmarkaðsmyntir sem fallið hafa hvað mest, sýnir að íslenska krónan sveiflast í raun ekki með þessum myntum," segir greiningardeildin.

Hún segir að raunverulegt gengisfall nýmarkaðsmynta hafi átt sér stað um 10. maí síðastliðinum og tengdist vandræðum tyrkneskra stjórnvalda við að viðhalda trúverðugleika gagnvart erlendum fjárfestum.

?Fall tyrknesku lírunnar hafði viðtæk áhrif í löndum eins og Suður Afríku, Ungverjalandi, Póllandi, Braselíu og Indónesíu svo nokkur lönd séu nefnd. Áhrifin á íslensku krónuna voru hins vegar því sem næst engin og sama má segja um nýsjálenska dollarann, en þar hefur gengið farið lækkandi, m.a. vegna mikils viðskiptahalla," segir greiningardeildin

Með þessu segir hún hafa sýnt fram að á ?að íslenska krónan sveiflast þrátt fyrir allt ekki með nýmarkaðsmyntum, öfugt við það sem oft hefur verið haldið fram."

?Meðfylgjandi mynd sýnir gengi nokkurra mynta gagnvart evru og hafa þær allar verið stilltar á 100, 20. febrúar, daginn áður en gengi krónunnar féll," segir greiningardeildin.