Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, segist ánægð með fyrstu mánuðina í starfi og segist ganga vel að koma sér inn í verkefni ráðuneytisins. Hún hefur sett loftlags- og umhverfismál á oddinn og ekki farið leynt með þá skoðun sína að hún telji stóriðju ekki samrýmast stefnu Bjartrar framtíðar um umhverfisvernd og fjölbreytt atvinnulíf.

Uggandi yfir sjókvíaeldi

Nú hefur mikið verið rætt um sjókvíaeldi á laxi að undanförnu, en slík uppbygging hefur sérstaklega verið gagnrýnd á grundvelli mengunarsjónarmiða. Hver er afstaða þín til slíkrar atvinnuuppbyggingar?

„Þessi uppbygging er auðvitað ákveðið áhyggjuefni, hún er það. Ég fór á Bíldudalfyrir tveimur árum síðan og ég skil vel að fólk á svæðum eins og Vestfjörðum taki slíkri atvinnuuppbyggingu fagnandi. Ég fór svo aftur þangað síðasta sumar og það var vissulega öðruvísi um að lítast í þorpinu. Ég skil þessi sjónarmið vel og ég styð atvinnuuppbyggingu af ýmsu tagi, en hún má ekki vera þannig uppsett að hún ógni lífríkinu eða taka allt pláss frá annars konar uppbyggingu. Hlutirnir þurfa að fá að vera í jafnvægi til þess að geta verið sjálfbærir. Það liggur fyrir að það þarf að skipuleggja haf- og strandsvæði og mér fyndist eðlilegt að bíða með frekari leyfisveitingar á fiskeldi áður en það verður gert.

Eins og er þá finnst mér þetta vera kapphlaup um að vera fremst í röðinni til að fá leyfi og við vitum að leyfin eru ekki endalaus, þetta eru takmörkuð gæði. Við erum að passa upp á þetta með því að burðarþolsmeta firði og við erum með kynslóðaskipt eldi í lögum hjá okkur. Það á að gefa rými til þess að hvíla firðina og að þeir nái að hreinsa sig nægilega. Það skiptir mjög miklu máli, en ég er uggandi yfir þessu, ég segi það alveg eins og er.“

Átta af síðustu níu umhverfisráðherrum konur

Ef litið er yfir lista umhverfisráðherra má sjá að átta af síðustu níu umhverfisráðherrum voru konur. Kanntu einhverja skýringu á þessu? Eru konur frekar að sækja í þetta ráðuneyti?

„Ég sótti allavega í þetta ráðuneyti. Einhver hefur útskýrt það þannig að þessi málaflokkur hafi áður verið flokkaður sem svokallað „soft issue“, en það er auðvitað harðasta efnahagsmál heimsins að loftlagsmálin séu í lagi og að náttúrúauðlindirnar séu nýttar á sjálfbæran hátt en ekki þurrausnar. Ég kann í raun enga skýringu á þessu aðra en þá að konur hugsa kannski gjarnan til langtíma. Karlar gera það auðvitað oft líka en þetta er eitthvað sem mér finnst sannarlega vera einkennandi fyrir konur, frekar en að horfa til skammtíma atriða sem að geta kannski verið vinsælar fyrir pólitíkusa í eitt eða tvö ár.

Kannski er einhver meiri meðvitund um stóra samhengið eða kannski snýst þetta um eitthvert móðurlegt eðli, ég veit það ekki, en ég er allavega með boxhanskana á mér varðandi þessi mál. Það er bara þetta eða ekkert, þetta er undirstaðan fyrir allt og þetta er líka undirstaðan fyrir allar auðlindirnar okar. Ef náttúran er ekki í lagi þá getum við gleymt þessum túrisma, ef hafið er ekki í lagi þá getum við gleymt sjávarútveginum og svona má lengi áfram telja. Kannski er það þetta samhengi sem þessar ágætu konur hafa áttað sig betur á en aðrir.“

Viðtalið við Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast einstak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.