Í viðtali við Fiskifréttir þann 17. maí síðastliðinn fer Einar Hálfdánarson útgerðarmaður stórum orðum um þau skilyrði sem sett eru fyrir tilraunaveiðum á ígulkerjum og framkvæmd þeirra.  Nokkrar rangfærslur eru í máli Einars sem rétt er að leiðrétta.

Efasemdir um skilyrði

Einar efast um að þau skilyrði sem sett eru í tilraunaveiðileyfi á ígulkerjum (og sæbjúgum) standist lög um stjórn fiskveiða og vísar þar til 8. greinar laga nr. 116 frá 2006. Í þeirri grein segir að veiðar eigi að vera öllum frjálsar nema þær séu takmarkaðar með leyfilegum heildarafla og kvóta.  Því er til að svara að neðar í 8. grein sömu laga er tekið fram að ráðherra sé heimilt að kveða nánar á um framkvæmd ákvæða greinarinnar í reglugerð. Í reglugerð um veiðar á ígulkerjum (742/2019) er kveðið á um í 1. grein að veiðar á ígulkerjum séu bannaðar utan skilgreindra svæða (Breiðafjörður) en í 4. grein sömu reglugerðar er fjallað um tilraunaveiðileyfi og segir þar orðrétt: „Heimilt er að binda leyfi til tilraunaveiða tilteknum skilyrðum, svo sem um hámarksafla, eftirliti Hafrannsóknastofnunar eða Fiskistofu með veiðunum, gerð plógs, greiningu afla og skýrsluskil til Hafrannsóknastofnunar.“

Í umsögnum sínum um umsóknir um tilraunaveiðileyfi á ígulkerjum og sæbjúgum hefur Hafrannsóknastofnun, vegna varúðarsjónamiða, lagt til að afli fari ekki umfram ákveðið hámark meðan engin vitneskja er um veiðiþol á viðkomandi svæði.  Jafnframt að tekin séu 10 tog á svæðinu þar sem eftirlitsmaður er um borð til þess að fylgjast með aflabrögðum en ekki síður mögulegum meðafla viðkvæmra botntegunda.  Það á ekki að vera sjálfgefið að hægt sé að fara með stórvirk veiðarfæri eftirlitslaust inn á ósnortin svæði líkt og ráða má af máli Einars.  Á grunnsævi þar sem ígulker veiðast finnast á mörgum stöðum hægvaxandi kalkþörungar ásamt öðrum lífverum sem mynda þrívíð búsvæði og eru mikilvæg uppeldissvæði fyrir fiskungviði nytjastofna.

Að hengja bakara fyrir smið

Í öllum tilfellum hefur eftirlitsmaður Fiskistofu farið með tilraunaveiðileyfishöfum bæði í ígulkerjum og sæbjúgum en ekki starfsfólk Hafrannsóknastofnunar.  Einar er því að hengja bakara fyrir smið þegar hann býsnast yfir því stofnunin skaffi ekki starfsfólk til að fara með í róðra.  Síðustu mánuði, meðan faraldur COVID-19 hefur geysað hafa allir þurft að breyta háttum sínum.  Opinberar stofnanir líkt og Fiskistofa og Hafrannsóknastofnun verða að sjálfsögðu að „hlíða Víði“ og hafa því dregið stórlega úr samneyti starfsmanna viðkomandi stofnanna við utanaðkomandi aðila.  Líkt og flestir vita er nær ómögulegt er að viðhalda 2 metra fjarlægð milli fólks á litlum báti svo dæmi sé tekið.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákvað að þeir aðilar sem hefðu sótt um tilraunaveiðileyfi fyrir COVID-19 mættu nýta leyfin án þess að eftirlitsmaður færi með.  Hinsvegar myndi það ekki gilda um leyfi sem sótt var um á meðan COVID takmarkanir væru í gildi.  Þannig fékk Einar að fara í Fákrúðsfjörð án eftirlitsmanns með því skilyrði að skráningar væru með sama sniði og þegar eftirlitsmaður er um borð og sama gilti um sæbjúgnaveiðar á Húnaflóa sem hann vísar til.  Hann sótti svo seinna aftur um tilraunaveiðileyfi meðan á COVID stóð og þá mátti honum ljóst vera að ekki yrði gerð undantekning frá því að eftirlitsmaður kæmi með í róður.

Öllum er ljóst að COVID-19 hefur haft mikil áhrif á alla heimsbyggðina, þar með talið á Íslandi og eru stór hluti af þeim raunum sem Einar rekur í viðtalinu.  Nú er hinsvegar landið farið að rísa og þó að veiðitímabil ígulkerja sé lokið þetta vorið þá er vonandi að samfélagið komist fljótt aftur í samt lag og að fólk og fyrirtæki geti haldið áfram fyrri iðju.

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar