Í úttekt danska Ekstrablaðsins á miðvikudaginn var sjónunum beint að lettneska bankanum JSC Lateko Bank sem er í meirihlutaeigu íslenskra fjárfesta. Að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, aðaleiganda Straumborgar ehf., sem á 51% hlut í Lateko er umfjöllunin byggð á útúrsnúningum og misskilningi. Sagðist hann ekki skilja hvað blaðamönnum Ekstrablaðsins gengi til með umfjöllun sinni nema fyrir þeim vakti að rægja íslenskt viðskiptalíf.

"Það er greinilegt að þeir eru að rægja okkur Íslendinga og búa þetta til. Þetta er afar dapurlegt," sagði Jón Helgi sem sagðist hafa átt stutt samtal við blaðamann Ekstrablaðsins og síðan sent honum afrit af nýjustu ársskýrslu bankans og niðurstöðu lánshæfisfyrirtækisins Fitsch Ratings. Hann sagði það sem eftir honum væri haft væri byggt á útúrsnúningum.

Í umfjöllun Ekstrablaðsins er rætt um nokkra þætti í starfsemi Lateko. Þar má fyrst nefna málaferli sem bankinn á í fyrir bandarískum dómsstólum og tengjast keðjubréfamisferli eða svokölluðu pýramídafyrirtæki í Lettlandi árið 2000. Talsmenn íslensku fjárfestanna segja að bankinn tengdist þessu máli ekki að öðru leyti en því að hinir meintu misferlismenn áttu í viðskiptum við bankann, notuðu meðal annars kredikort útgefin af Lateko Bank. Jón Helgi sagði að þessi málaferli væru ekkert leyndarmál, þeirra væri getið í ársskýrslu bankans og allar upplýsingar um þau og önnur málaferli sem bankinn tengdist hefðu legið fyrir þegar áreiðanleikakönnun var gerð vegna kaupa þeirra á bankanum síðasta vetur. Þetta hefði hann tjáð blaðamanni Extrablaðsins ásamt upplýsingum um hvar skýringar á því væri að finna í ársreikningnum. "Það er yfirleitt svo að bankar tengjast ýmsum málaferlum og lögfræðingur bankans tjáði mér að það væru hverfandi líkur á að bankinn tapaði málinu."

Rússneski seðlabankinn tók út starfsemina

Annað mál tengist sambankaláni sem bankinn tók síðasta sumar og var leitt af Kaupþingi banka og austurríska bankanum RZB og var greint frá því á sínum tíma hér í Viðskiptablaðinu. Sambankalánið var upp á 20 milljónir evra og einn þeirra aðila sem tók þátt í fjármögnun þess var danski bankinn Morsö Bank og þannig tengja blaðamenn Ekstrablaðsins málið við Danmörku. Jón Helgi sagði að þetta væri algerlega ótengd mál og benti á að bankinn væri að ljúka nýju sambankaláni eins og kemur fram annars staðar á síðunni. Annað danskt blað, Berlinske Tidene, tók upp þannan anga umfjöllunar Ekstrablaðsins sem fjallar um meint tengsl Lateko bankans við að flytja hagnað frá rússneska olíufélaginu TNK til að komast undan skatti.

Þorsteins Ólafssonar, viðskiptafræðingur og stjórnarmaður í JSC Lateko Bank í Lettlandi, telur umfjöllun Ekstrablaðsins danska um bankann út í hött. Þorsteinn sagði að blaðið væri að draga fram sex ára gömul mál með umfjöllun sinni í gær og þyrla upp moldviðri vegna þeirra. Hann sagði að bankinn hefði allt sitt á hreinu.

"Ég held að það sé óhætt að fullyrða að bankinn sé með allt sitt á þurru en hann er búinn að fara í gegnum ýtarlega rannsókn og skoðun. Þetta var staðfest við mig af rússneska seðlabankanum þegar ég átti fund með þeim í vor. Þá staðfestu athuganir þeirra að bankinn væri algerlega hreinn og stæði ekki í neinum óeðlilegum viðskiptum," sagði Þorsteinn. Hann bætti því við að nýir eigendur bankans hefðu mikið lagt upp úr því að bankinn væri rekinn í samræmi við bestu viðskiptahætti og í samræmi við lög og reglur. Því hefði verið óskað eftir þessari úttekt rússneska seðlabankans og hefði aðalbankastjóri bankans setið fundinn með Þorsteini.

Lögð áhersla á að bæta vinnuferli

Að sögn Gunnlaugs Jónssonar, framkvæmdastjóra Norvest, sem vinnur að verkefninu fyri hönd Straumborgar hefur verið lögð mikil áhersla á að bæta öll vinnuferli innan Lateko banka. Mikil vinna hefði verið lögð í það áður en Straumborg kom inn og sú vinna hefði haldið áfram eftir það. Um leið væru stjórnendur með vestræna tengingu og reynslu komnir inn í bankann. "Það er að hjálpa bankanum mjög mikið og hann nýtur þess að við erum að styðja hann á ýmsan hátt. Þetta er orðinn dæmigerður vestrænn banki," sagði Gunnlaugur.

51% af hlutafé Lateko er í eigu Straumborgar ehf., 19.8% eru í eigu Andrejs Svirèenkovs, 19.8% í eigu Jurijs Sapurovs, Ice-Balt Invest, félag í eigu Þorsteins Ólafssonar og Vitalijs Gavrilovs á 9% hlut. Fjármálaritið The Banker valdi Lateko besta banka Lettlands árið 2005 og tímaritið Global Financie Magazine valdi bankann besta banka Lettlands 2006. Hjá bankanum starfa nú 630 starfsmenn og rekur hann 90 afgreiðslustaði. Bankinn fékk fyrir skömmu jákvæðar horfur hjá Fitsch Ratings og fékk lánshæfsimat B+. Lateko var stofnaður 1992 og er hann alhliða viðskiptabanki fyrir lettneska einstaklinga og fyrirtæki. Hann tekur t.d. við innlánum, veitir greiðsluþjónustu, veitir allar tegundir lána, gefur út kreditkort, á viðskipti fyrir hönd viðskiptavina á gjaldeyris-, skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði, rekur lífeyrissjóði og svo framvegis.