Fasteignaverð í Ungverjalandi hefur ekki komist á  sama skrið og gerðist t.d. í Búlgaríu, Tékklandi og víðar. Hækkun fasteignaverðs hefur verið nær sú sama og hagvöxturinn í landinu og var aðeins 3,8% árið 2006. Mælingar Knigt Frank sýndu þó  lækkun um 1% haustið 2006 og spáð var 2,5% hækkunum 2007. Þó er talið mögulegt að kaflaskil kunni nú að vera í uppsiglingu í landinu með stórauknu flæði fjármagns frá Evrópusambandinu til margvíslegra framkvæmda.

Stjórnvöld í Ungverjalandi njóta ekki mikils trausts í fjármálaheiminum ef marka má umfjöllun á vefsíðu Propertastic. Þar er sagt að stjórnvöld hafi hreinlega logið að Evrópusambandinu varðandi efnahagslega stöðu landsins og sagt hana vera miklu betri en raun var á. Var þessu jafnvel líkt við Enron-hneykslið í Bandaríkjunum. Fjöldagöngur voru farnar og krafist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Stjórnin lifði þó af en talið er að þetta hafi leitt til þess að erlendir fjárfestar hafi haldið að sér höndum varðandi fjárfestingar í Ungverjalandi.

Írar, sem upplifað höfðu miklar hækkanir fasteignaverðs í Dublin, héldu þó ótrauðir inn á ungverskan markað í von um að það sama myndi gerast þar. Vissulega fór verð að stíga fyrst eftir inngönguna í Evrópusambandið, en þá ætluðu líka allir að græða í einu. Gríðarlegar byggingaframkvæmdir fóru í gang sem leiddi til ofmettunar markaðarins á skömmum tíma og verðstöðnunar.

Af þessum ástæðum spáði Knight Frank því að hækkanir í Ungverjalandi yrðu ekki í neinum takti við það sem gerst hefði í öðrum nýjum Evrópusambandslöndum. Hækkanir 2007 næðu aðeins 2,5%. Þá hafa reglugerðir ekki verið til að auðvelda útlendingum kaup á fasteignum í landinu. Af þessum sökum sneru menn sér einfaldlega annað, eins og til nágrannaríkjanna; Tékklands, Búlgaríu og síðan Eystrasaltsríkjanna, og verð hætti að hækka í Ungverjalandi.

Lesið meira um verð á húsnæði í Ungverjalandi í helgarblaði Viðskiptablaðsins.