Bandaríski fjárfestirinn, Warren Buffett, sem jafnframt er næst ríkasti maður heims segir að bandarísk yfirvöld séu loksins að ná árangri í baráttu sinni við að halda fjármálakerfi landsins á floti og fjárfestar geti nú horft fram á bjartari tíma.

Þetta sagði Buffett á ársfundi fjárfestingafélags síns, Berkshire Hathaway sem haldinn var í Omaha í Nebraska fylki í gær en um 35 þúsund manns sóttu fundinn.

Í ársskýrslu Berkshire Hathaway kom fram að eignarsafn félagsins rýrnaði um tæp 10% á síðasta ári og Buffett varaði við því að það myndi rýrna enn frekar á þessu ári. Þá minnkuðu auðæfi Buffett um 25 milljarða Bandaríkjadali á síðasta ári.

Í ræðu sinni á fundinum sagði Buffett að síðasta ár hefði verið „einstakt ár“ og bætti því við að „fjárhagslegur fellibylur“ hefði gengið yfir allt árið. Þá varði hann ríkisafskipti af mörkuðum í ljósi þess að almenningur og fyrirtæki hefði með öllu haldið að sér höndum og því nauðsynlegt fyrir yfirvöld að grípa inn í en hann varaði þó við því að ríkið myndi „festast á markaði sem það á ekki erindi á,“ eins og hann orðaði það.

Þá sagði Buffett að afskipti yfirvalda væru nú fyrst að skila árangri og líklega gæti ríkið dregið sig út af markaði fyrir áramót, þ.e. að þau fjármálafyrirtæki sem fengið hefðu neyðarlán frá ríkinu gætu annað hvort verið búin að greiða þau eða komin með fastar endurgreiðslur á dagsskrá.

2008 var versta ár í fjárfestingasögu Buffett

Þó að saga Warren Buffett - sem gjarnan er kallaður „Spámaðurinn frá Omaha“ – sé nánast full af velgengni eru helstu viðskiptafjölmiðlar vestanhafs sammála um að ekki einu sinni hann gat komist hjá því að gera mistök og tapa á síðasta ári. í umfjöllun Bloomberg fréttaveitunnar er haft eftir ónafngreindum aðila að hugsanlega sé Buffett að missa tilfinninguna (e. loosing the touch) fyrir réttum fjárfestingum.

Þannig þótti það til að mynda mjög neyðarlegt fyrir Buffett á síðasta ári þegar hann keypti þriggja milljarða dala hlut í olíufélaginu ConocoPhillips rétt áður en olíuverð fór að hríðfalla á ný.

Þá segir Greg Wood, viðskiptablaðamaður BBC í Bandaríkjunum að síðasta ár hafi verið það versta í fjárfestingasögu Buffett, sem sjálfur hefur viðurkennt að hafa fjárfest illa á síðasta ári og jafnvel farið út í „heimskulegar fjárfestingar,“ eins og hann orðar það sjálfur.