„Nei, Stangaveiðifélag Reykjavíkur er ekki gjaldþrota og ætlar sér að lifa mörg ár til viðbótar,“ segir Bjarni Júlíusson, formaður félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir hins vegar ekkert launungarmál að rekstur SVFR hafi verið þungur undanfarin ár eins og hjá mörgum veiðileyfissölum.

Bjarni segir félagið hafa greitt reikninga reglulega og sé það ekki á vanskilaskrá.

„Við höfum heyrt þetta slúður og vísum því einfaldlega alfarið á bug. Nú er mjög erfiðu ári að ljúka hjá félaginu en við höfum náð tökum á erfiðleikunum og höldum okkar striki. Við höfum gert upp við allflesta veiðiréttareigendur og það sem út af stendur erum við að semja um. Við horfum svo bjartsýn til næsta árs. Forsala veiðileyfa fyrir 2014 hefur farið mjög vel af stað. Langá og Hítará seljast mjög vel og það virðist vera mikill áhugi á urriðasvæðunum fyrir norðan. Ég tel að á næsta ári náum við vopnum okkar og félagið mun byggja sig upp á nýjan leik,“ segir Bjarni Júlíusson.

Nánar er fjallað um málið og tekjur af stangveiði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .