*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 23. apríl 2018 10:46

Er starfsemi Alvogen til sölu eða ekki?

Tvívegis hefur í erlendum fjölmiðlum verið fjallað um sölu á starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fréttastofa Reuters fjallar nú um að Alvogen sé að setja starfsemi sína í Mið- og Austur-Evrópu í söluferli og að eigendur félagsins hyggist selja sig út úr starfseminni hægt og rólega. Þetta er í annað sinn sem fréttir eru sagðar í erlendum miðlum um sölu fyrrgreindrar starfsemi.

Forsvarsmenn Alvogen hafa hins vegar hafnað því að starfsemin sé til sölu. Í samtali við Viðskiptablaðið í mars sagði Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen, að starfsemin væri ekki í söluferli og engar ákvarðanir hafi verið teknar um hugsanlega sölu á starfsemi félagsins í Austur-Evrópu. 

„Stjórn Alvogen hefur hins vegar áhuga á að auka enn frekar umsvif sín í Asíu, sérstaklega í Kína. Verði það niðurstaðan kann að vera að umsvif fyrirtækisins í Evrópu verði endurskoðuð. En það er ekkert ákveðið í þeim efnum,“ sagði Halldór ennfremur í viðtalinu en hann sagði að málin ættu að skýrast frekar á öðrum ársfjórðungi ársins, sem hófst í apríl.

Í frétt Reuters segir að ráðgjafar- og fjárfestingarfélagið CVC og Síngapúrski fjárfestingarsjóðurinn Temasek, sem keyptu meirihluta hlutafjár í Alvogen árið 2015, hafi nú falið fjárfestingarbankanum Jefferies að finna kaupanda fyrir starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu sem gæti verið allt að 100 milljarða króna virði.

Þá segir einnig að þótt eigendur Alvogen hafi ekki formlega hafið uppboðsferli þá séu þeir byrjaðir að snerta á fyrirtækjum sem hafi sýnt öðrum samheitalyfjafélögum áhuga á síðustu misserum.