„Greinin hefur vaxið um 20% á síðustu árum og þess vegna er mjög mikilvægt að vinna í hagsmunamálum hennar. Við í sameiningu getum náð fram árangri,“ sagði Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri AGR og formaður SUT á hádegisfundi þeirra í dag. Yfirskrift fundarins var: Er tæknifólk skapandi?

Meðal þeirra sem héldu erindi var Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri Kolibri. Hann talaði um að hér áður fyrir hafi hönnuðir verið fengnir eftir á þegar allt annað var klappað og klárt en núna væru þeir þátttakendur í ákvörðunartöku og ferlinu frá byrjun. Það væri mun skilvirkara og einnig kæmi öðruvísi og mikilvægt sjónarmið fram strax frá því að hugmynd fæðist og verði að veruleika. Pétur sagði að aldrei aftur myndi hann starfa í fyrirtæki þar sem hönnuðurinn væri ekki mikilvægur partur af teyminu.

Pétur benti einnig á að úti í heimi væru stórfyrirtæki í auknum mæli að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að hafa hönnuði í framkvæmdastjórn. Fyrirtæki á borð við Apple og Pepsi væru með sérstakan framkvæmdastjóra hönnunar sem situr í æðstu stjórn fyrirtækisins. Endaði hann svo á því að segja að við ættum í raun að hafa hönnuði í öllu því sem við gerum því þá verði lífið svo miklu áhugaverðara.