„Nú er ég ekki lengur í kastljósinu. Ég ætla að njóta þess og segja: Þetta er einkamál,“ segir Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann neitar að ræða launadeilu sína við Steingrím Bjarna Erlingsson, útgerðarmann og eiganda félagsins Fáfnir Holding.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu að Steingrímur leitaði ráða hjá Tryggva Þór vegna risaskips sem hann vann að því að panta í fyrra. Félag Steingríms á að þjónusta fyrirtæki í olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu og öðrum hafsvæðinu fyrir norðan og austan landið. Risaskip sem félagið fær afhent í sumar kostar 7,3 milljarða króna og er það eitt dýrasta skip landsins.

Tryggvi var þingmaður Norðausturkjördæmis þar til í fyrravor þegar hann náði ekki inn á lista í prófkjöri flokksins. Ekki liggur fyrir í hverju ráðgjöf Tryggva fólst. En eftir því sem næst verður komist komst ágætt samband á á milli Tryggva og forsvarsmanna Fáfnis og mun Tryggvi hafa lagt til að þjónustuskipið yrði skráð í Fjarðabyggð. Í kjölfar þess að hann tapaði í prófkjörsslagnum taldi hann sig vera að fara að vinna hjá Fáfni, ýmist sem forstjóri eða stjórnarformaður eins af félögunum. Af því varð hins vegar ekki og munu engin gögn liggja fyrir um slíkt. Tryggvi sendi því reikning á Fáni Holding upp á 3,9 milljónir króna fyrir vinnu sína. Þegar reikningur var ekki greiddur stefndi Tryggvi Steingrími og fyrirtækjum hans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .