Í grein á vef Íslandsbanka veltir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur bankans, fyrir sér hvort vaxtalækkun Seðlabankans sé að skila sér. Hann bendir á að langtíma markaðsvextir hafi hækkað talsvert frá nóvemberbyrjun þrátt fyrir óbreytta stýrivexti. Það dragi úr jákvæðum áhrifum stýrivaxtalækkunar á heimili og fyrirtæki í landinu. Þá segir hann jafnframt að stjórnvöld þurfi líklega fyrr en síðar að huga að frekari slökun fjármálalegs aðhalds.

Í grein Jóns Bjarka segir jafnframt fram að markaðir hafi tekið vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær og skilaboðum stjórnenda bankans í kjölfarið heldur fálega. „Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkaði um 6 – 13 punkta (hundraðshluta úr prósentu) í kjölfar ákvörðunarinnar, hvort sem litið er til verðtryggðra eða óverðtryggðra vaxtaferla. Raunvextir á skuldabréfamarkaði hækkuðu því í raun um sem nemur u.þ.b. 0,1% eftir ákvörðunina. Frá vaxtaákvörðuninni í nóvemberbyrjun hafa raunvextir hækkað um 40 - 50 punkta hvort sem miðað er við ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisbréfa eða reiknaða raunávöxtunarkröfu óverðtryggðra bréfa,“ segir í greininni.

Jón Bjarki tekur undir orð Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, sem sagði í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar að það væri áhyggjuefni ef lækkun vaxta væri ekki að miðlast út í hagkerfið. „Hann taldi þó að áhyggjuefnið um þessar mundir væru ekki fyrst og fremst verð á fjármagni heldur fremur framboð á fjármagni. Rétt er að taka undir áhyggjur seðlabankastjóra af framboði á fjármagni þótt við teljum ekki síður mikilvægt að horfa til þróunar markaðsvaxta og raunar helst þetta tvennt í hendur að verulegu leyti,“ segir m.a. í grein Jóns Bjarka.

Bætist í hóp gagnrýnenda

Íslandsbanki bætist því í hóp aðila sem hafa lýst yfir vonbrigðum með stýrivaxtaákvörðunina. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins lýstu í gær sömuleiðis yfir vonbrigðum sínum með ákvörðunina. SA sagðist m.a. telja ákvörðunina misráðna í ljósi hagtalna sem sýni dýpkandi lægð í efnahagslífinu, fækkun starfa og vaxandi atvinnuleysi.