Blóðugur niðurskurður hjá Evrópusambands-ríkjunum hefur valdið því að námsmanna- og vísindasjóðir Evrópusambandsins (ESB) eru við það að tæmast. Nú er svo komið að framkvæmdastjórn ESB þarf að nýta neyðarsjóði til að halda lífi í sjóðunum og gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar.

Í netmiðlinum EUobserver , sem fylgist náið með málefnum ESB, segir m.a. að hætta sé á að Erasmus-áætlunin, sem ætlað er að stuðla að auknu samstarfi á meðal háskóla í Evrópu, verði gjaldþrota. Þá er haft eftir Alain Lamassoure, formanni fjárlaganefndar Evrópuþingsins, að rannsóknar- og nýsköpunarsjóðir ESB geti tæmst á næstu vikum.

Patrizio Fiorilli, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, segir í samtali við EUobserver skiptinema í Erasmus-áætluninni ekki þurfa að óttast fjárþurrð fljótlega. Búið sé að standa við 70% skuldbindinga sjóðsins til áramóta.