Tyrkneska líran hefur tekið dýfu eftir að Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands rak seðlabankastjóra landsins, Naci Agbal óvænt á laugardaginn. Líran féll mest um 14% í morgun en lækkunin er nú í um 8% gagnvart dollara. Þá féll hlutabréfa og skuldabréfaverð einnig skarpt en Borsa Istanbul 100 vísitalan lækkaði um 9% í morgun og viðskipti voru stöðvuð um tíma.

Ákvörðunin um brottrekstur Agbal hefur komið fjárfestum mjög á á óvart að því er fram kemur í umfjöllun FT . Agbal var ráðinn seðlabankastjóri í nóvember og er sagður hafa tekist að auka trú á lírunni. Gjaldmiðilinn hafði styrkst nokkuð frá því hann tók við eftir að hafa tekið dýfu fyrr á árinu 2020.

Margir óttast afturhvarf til fyrri stefnu með nýjum seðlabankastjóra Sahap Kavcioglu, en meira en 15% verðbólga er nú í Tyrklandi. Kavcioglu er fremur lítt þekktur prófessor og fyrrverandi þingmaður í Réttlætis- og þróunarflokksins AKP, flokkur Erdogan forseta.