Efnahagur Evrópusambandsins stendur frammi fyrir meiri erfiðleikum á árinu 2008 en á síðasta ári í ljósi óróleika á fjármálamörkuðum og hækkandi olíu- og matvælaverðs að sögn stjórnvalda í Slóveníu sem munu fara með forsætið innan sambandsins á fyrri helming þessa árs. AFP fréttastofan greindi frá þessu.

„Það væri óraunhæft af okkur að gera ekki ráð fyrir ákveðnum vandamálum í ljósi þess sem við höfum orðið vitni að á fjármálamörkuðunum, vegna hækkandi verðs á olíu og matvælum og áhrifa þeirra verðhækkana á efnahag aðildarríkja Evrópusambandsins,” sagði Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu, við blaðamenn í gær.

Jansa sagði að Slóvenía stefndi að því að leggja áherslu á „vandamálin á fjármálamörkuðunum” og sömuleiðis þær „aðgerðir sem nauðsynlegt væri að grípa til svo bregðast mætti við ástandinu og koma í veg fyrir slíkar aðstæður í framtíðinni.”

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spáði því í nóvember sl. að hægja myndi hagvöxti innan sambandsins á þessu ári og hann verða 2,4% miðað við 2,9% árið 2007.

Yfirmaður efnahags- og peningamála í framkvæmdastjórninni, Joaquin Almunia, sagði í samtali við AFP af sama tilefni að spárnar væru nú aðeins svartsýnari sem þýddi að líkurnar á minni hagvexti hefðu aukist.

„Ég vona að 2008 verði ár vaxtar jafnvel þótt hann verði ekki jafn mikill og 2007,” sagði hann.