Markaðurinn með þjónustu endurskoðenda hér á landi einkennist af stöðugleika og mikilli samkeppni. Tekjur endurskoðunarfyrirtækja sveiflast í takt við, eða nokkru á eftir, ganginum í efnahagslífinu. Markaðshlutdeild stærstu fyrirtækjanna hefur haldist nokkuð stöðug síðustu árin, en þegar litið er undir þilin sést að fyrirtækin standa sig misvel þegar kemur að arðsemi og framlegð rekstrar. Þetta er á meðal þess sem kemur í ljós þegar rekstur íslenskra endurskoðunarfyrirtækja er skoðaður.

Viðskiptablaðið kannaði rekstur fjögurra endurskoðunarfyrirtækja - Deloitte, KPMG, Ernst & Young og PriceWaterhouseCoopers (PWC) - eins og hann birtist í ársreikningum fyrirtækjanna fyrir rekstrarárið 2013-2014. Rekstrartímabil allra þessara fyrirtækja eru mismunandi, en í öllum tilfellum lýkur rekstrarárinu á tímabilinu frá maí fram í september. Fimmta endurskoðunarfyrirtækið, Grant Thornton, hefur ekki skilað ársreikningi sínum vegna síðasta rekstrarárs og því er ekki unnt að hafa það með í samanburðinum.

Mest arðsemi hjá EY

Samanlagðar tekjur rekstrarársins 2013-2014 hjá þeim fjórum endurskoðunarfyrirtækjum sem könnuð voru námu 8,5 milljörðum króna. KPMG hafði hæstar tekjur, eða 3,5 milljarða. Deloitte hafði 3 milljarða, PWC 1,2 milljarða og Ernst & Young um 760 milljónir í tekjur.

Tekjur þessara fjögurra fyrirtækja eru mjög stöðugar milli rekstrarára. Ernst & Young er eina fyrirtækið sem sá tekjur sínar hækka milli rekstrarársins 2012-2013 og 2013-2014, en tekjuhækkunin milli ára var 30 milljónir króna. Ernst & Young er einnig það fyrirtæki sem stendur best þegar kemur að mælikvörðum á arðsemi á borð við hlutfall hagnaðar af tekjum. Hagnaðarhlutfall Ernst & Young var 9% á árinu 2013-2014 samanborið við um 6% hjá KPMG og Deloitte og 2,5% hjá PWC.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .